Handbolti

Landin um Guðmund: Þess vegna er hann sá besti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niklas Landin.
Niklas Landin. Vísir/Getty
Niklas Landin, fyrirliði danska landsliðsins, var ánægður með fyrsta leikinn undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar en Danir unnu öruggan 31-21 sigur á Litháen í undankeppni EM í gærkvöldi.

Niklas Landin var spurður út í nýja þjálfarann eftir leikinn en framundan er erfiðari leikur um helgina þar sem Danir mæta Bosníumönnum þeim sömu og slógu Ísland út í umspilinu um laust sæti á HM.

„Hann er alltaf rosalega vel undirbúinn og hann sýndi okkur fullt af myndböndum með liði Litháen. Sumir halda kannski að við séum með lið sem þarf ekki að undirbúa sig eins vel fyrir svona leiks eins og kannski leik við Frakka. Guðmundur fór hinsvegar inn í þennan leik eins og í alla aðra leiki. Þess vegna tel ég að hann sé sá besti. Hann er alltaf vel undirbúinn og þess vegna vinnum við leikina," sagði Niklas Landin.

„Það hefur kannski ekki reynt fyrir alvöru á hann ennþá en landsliðið þarf líka tíma til að spila sig saman," sagði Landin en hann var ekki sá eini sem hrósaði íslenska þjálfaranum.

„Hann er reynslumikill og hefur farið í gegnum marga svona leiki. Mér fannst við nýta alla klukkutímana sem höfðum fyrir leikinn eins vel og við gátum. Við komum atriðum að hjá leikmönnum og ég er mjög ánægður. Þetta var mjög góður fyrsti leikur hjá honum," sagði aðstoðarmaður Guðmundar Peter Bredsdorff Larsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×