Viðskipti innlent

Landið troðfullt af íslenskum krónum

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Erlendir kröfuhafar Kaupþings, Landsbanka og Glitnis munu fá allt að 450 milljarða króna af kröfum sínum greiddar í íslenskum krónum á næstu árum miðað við síðustu birtu fjárhagsupplýsingar föllnu bankanna þriggja. Vegna gjaldeyrishafta verður ómögulegt fyrir þá að breyta því fjármagni í erlendan gjaldeyri. Heimildir Fréttablaðsins herma að til standi að bjóða kröfuhöfunum útgönguleið úr íslensku hagkerfi gegn því að þeir bindi féð í ákveðinn tíma hérlendis.

Fulltrúar kröfuhafanna hafa fundað með ráðherrum, þingmönnum og öðrum hagsmunaaðilum með það að leiðarljósi að finna fjárfestingartækifæri fyrir þetta fé hérlendis. Heimildir Fréttablaðsins herma að þeir hafi einnig þreifað sig áfram með kaup á einstökum fyrirtækjum í huga. Á meðal þeirra geira sem þeir horfa hýru auga til er orkuiðnaðurinn.

Til viðbótar við þessa fyrirsjáanlega miklu krónueign erlendu kröfuhafanna er aflandskrónueign um 410 milljarðar króna. Seðlabanki Íslands kynnti í síðasta mánuði svokallaða fjárfestingarleið sem snerist meðal annars um að bjóða eigendum þessara króna að fjárfesta hérlendis með miklum afslætti. Til þess þurfa þeir að koma með annað eins af erlendum gjaldeyri inn í landið og binda fjárfestingu sína hérlendis í fimm ár.

Kröfuhafarnir vilja setja á fót einhvers konar samstarfsvettvang þar sem fundnar eru leiðir til að koma þessu gríðarlega fjármagni í fjárfestingar. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að verið sé að vinna að heildstæðri áætlun sem muni meðal annars taka á því hvernig íslenskar krónueignir kröfuhafanna verði losaðar út úr íslensku hagkerfi. „Við áttum okkur á því að það eru útflæðisáhættur vegna þessa. Seðlabankinn er að vinna að greiningu á umfanginu og heildstæðri áætlun."

Að sögn Árna Páls þarf ekki sérstakan samstarfsvettvang svo að kröfuhafarnir geti fjárfest hérlendis fyrir krónurnar sínar. „Þeir fjárfestingarmöguleikar sem eru í landinu eru auðvitað opnir fyrir þetta fé ef það verður greitt beint út úr þrotabúunum. Kröfuhafarnir þurfa í sjálfu sér ekki að tala við einn eða neinn um það."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×