Innlent

Landhelgisgæslan reiknar ekki með að borga

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Forstjóri Landhelgisgæslunnar reiknar ekki með að Gæslan greiði fyrir þær 250 hríðskotabyssur sem norski herinn seldi henni. Ráðherrum hafi ekki verið greint frá kaupunum en aðilar innan innanríkisráðuneytisins hafi vitað af þeim.

Forstjóri Landhelgisgæslunnar segir Gæsluna hafa átt gott samstarf við Norðmenn um áratugaskeið.

„Í því samstarfi þá kom fram að Norðmenn væru að skipta út léttum vopnum. Norðmenn buðust til þess að útvega Íslendingum þessi vopn. Lögreglan ákvað að þiggja þetta góða boð og Landhelgisgæslan sömuleiðis,“ segir Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar.

250 MP5-hríðskotabyssur komu svo til landsins í febrúar á þessu ári en yfirmaður sprengju- og öryggisdeildar Gæslunnar skrifaði undir samkomulag þess efnis fyrir hana. Í því samkomulagi kom fram að byssurnar kostuðu 11,5 milljónir króna. Landhelgisgæslan reiknaði þó aldrei með að greiða fyrir byssurnar.

„Landhelgisgæslan hefur aldrei greitt eitt eða neitt fyrir þessa góðu aðstoð Norðmanna hvort sem það er á þessu sviði eða öðru. Það hefur hins vegar alltaf verið gert samkomulag um þessi mál og þjónusta eða búnaður hefur verið verðmerktur með ákveðnum tölum en það hefur aldrei verið innheimt. Það hefur aldrei verið sendur reikningur og við máttum ekki ætla annað en að það yrði eins í þessu tilfelli og það sama gildir um lögregluna,“ segir Georg.

Landhelgisgæslan hafði fljótlega samband við ríkislögreglustjóra eftir að tilboðið barst og þá vissu einnig aðilar hjá innanríkisráðuneytinu af málinu. Georg segir þó ekki hafa verið óskað eftir aðkomu ráðuneyta að málinu. Ráðherra var ekki tilkynnt sérstaklega um málið af Gæslunni. Hann telur um eðlilega framkvæmd að ræða og endurnýjun og það því ekki hafa þurft.

Vopnin eru enn á Keflavíkurflugvelli og hafa ekki verið afgreidd úr tollinum. Óljóst er hvort og hversu há tolla- og aðflutningsgjöldin verða og hvenær vopnin verða afgreidd.

„Nú verða þessi mál tekin til skoðunar og ég veit ekki svo sem hvað verður en ég vona nú að úr þessu rætist og við getum haldið áfram þessu góða samstarfi við Norðmenn sem er okkur mjög mikilsvirði,“ segir Georg Lárusson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×