Innlent

Landeigendur á Stóru Vatnsleysu harma dauða Jackie

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Anna Hermannsdóttir, sérkennari og hundaeigandi í Hafnarfirði  segir hræðilegt að hafa misst fjögurra mánaða hvolp ofan í holu á útivistarsvæðinu á Höskuldarvöllum á Vatnsleysuströnd þar sem hann drapst.  Anna segir að það sé engu líkara en að jörðin hafi gleypt hvolpinn. Landeigendur harma atburðinn.

Höskuldarvellir eru útivistarsvæði í eigu landeigenda á Stóru Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd skammt frá fjallinu Keili á Reykjanesskaga.  Anna var þar á ferðinni í dag með Maríu Þorvarðardóttur, pistlahöfundi á Gaflaranum.is, sem vakti fyrst athygli á dauða hvolpsins Jackie, en  af einhverjum óskiljanlegum ástæðum féll hann ofan í holu á svæðinu, sem var full af vatni og drapst.  Með  henni í dag voru bróðir Jackie, Nói og pabbi þeirra, sem heitir Karúsó en allt eru þetta hvítir dverg snáserar, sem Anna ræktar.

„Ég er tveimur til þremur skrefum á eftir hvolpinum mínum þegar hún hverfur ofan í jörðina, það var enginn viðvörun, hún bara hvarf og ég heyrði ekkert. Holan er hérna á bakvið mig, ég tek tvö stór skref og ætla að kasta mér á eftir henni því ég hélt að þetta væri sprunga en það var ekkert, það var bara vatn. Ég setti  höndina ofan í en ég fann ekkert, það var ekkert, sem ég gat gripið í eða fundið”, segir Anna.

Jackie var rétt rúmir 50 sentímetrar að lengd.
En hvernig er að verða fyrir svona lífsreynslu ?

„Þetta er lamandi, ég óska ekki neinum að lenda í þessu,  ég er ennþá að jafna mig, að geta ekki gert neitt og enga björg veitt og ekki fundið fyrir neinu, þetta er bara hræðilegt”, bætir Anna við.

María, sem á sjálf þrjá hunda og tvo ketti segir málið skelfilegt. Hún lýsir sinni upplifun svona. „Hún er bara skelfileg, fyrsti sólarhringurinn sem ég sá þetta þá fóru Anna og Jackie ekki bara úr huga mér”.

En er verið að gera of mikið mál úr þessu ?

„Alls ekki”.


Tengdar fréttir

Jörðin gleypti hvolp á Vatnsleysuströnd

Anna Hermannsdóttir horfði á fjögurra mánaða hvolp hverfa ofan í holu fulla af vatni við Vatnsleysuströnd. Holan er ennþá þarna og er hættuleg að sögn Önnu „Já, ég hef heyrt að farið sé með leikskólabörn á þetta svæði, enda er þetta fólkvangur. Þetta hefði auðveldlega getað verið barn sem hefði sogast þarna niður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×