Sport

Lance Armstrong: Ég myndi líklega taka aftur inn ólögleg lyf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lance Armstrong.
Lance Armstrong. Vísir/Getty
Hjólreiðakappinn Lance Armstrong telur að það sá kominn tími á það að honum verði fyrirgefið en hann missti alla sjö titla sína í Frakklandshjólreiðakeppninni þegar upp komst um ólöglega lyfjanotkun hans.

Armstrong var í viðtali hjá BBC og þar viðurkennir hann að eflaust myndi hann taka aftur inn ólögleg lyf ef hann væri settur í sömu stöðu og fyrir tuttugu árum.

„Ef ég væri að keppa árið 2015 þá myndi ég ekki taka inn ólögleg lyf því það er ekki þörf á því í dag," sagði Lance Armstrong í viðtalinu.

„Ef þú færir með mig aftur til ársins 1995 þegar ólögleg lyfjanotkun var út um allt þá myndi ég líklega taka aftur inn ólögleg lyf," sagði Armstrong.

Þetta var fyrsta sjónvarpsviðtal Armstrong frá frægu viðtali hans við Oprah Winfrey en þar viðurkenndi hann ólöglega lyfjanotkun sína.

Lance Armstrong kom árið 1996 til baka eftir krabbamein og var yfirburðarmaður í hjólreiðunum frá 1999 til 2005. Hann þvertók alltaf fyrir að hafa tekið inn ólögleg lyf en viðurkenndi loks sök sína í janúar 2013.

Lance Armstrong vann Frakklandshjólreiðarnar sjö ár í röð frá 1999 til 2005 en missti alla titlana eftir að hann varð uppvís af lyfjamisnotkuninni.

Lance Armstrong sagði að nú sé að koma tími á að hann komi aftur úr felum og fari að lifa opinberu lífi á nýjan leik.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×