Innlent

Lán fyrir geðfatlaða verða felld niður

BBI skrifar
Lánveitingum smálánafyrirtækja til ungs fólks undir 20 ára aldri verður hætt þegar í stað. Auk þess verður lokað á lán til geðfatlaðra einstaklinga. Þetta var ákveðið í gær á fundi Útlána, regnhlífarsamtaka smálánafyrirtækja.

Það eru smálánafyrirtækin 1909 ehf., Hraðpeningar ehf., Kredia ehf. og Smálán ehf. sem munu breyta starfsemi sinni samkvæmt þessari ákvörðun. Mjög skiptar skoðanir hafa verið um ágæti smálánastarfseminnar að undanförnu en nú ríða fyrirtækin á vaðið og bæta starfsemi sína.

„Við höfum fengið ábendingar um að einhverjir af lánþegum aðildarfyrirtækjanna kunni að vera einstaklingar sem eiga við andlega erfiðleika að stríða," sagði Haukur Örn Birgisson hrl., lögmaður Útlána, og útskýrir að fyrirtækin vilji leggja sitt af mörkum til að greiða úr vandamálum þessa hóps. „Því stendur þeim eða aðstandendum þeirra til boða að setja sig í samband við sinn lánveitanda og sækja um fulla niðurfellingu höfuðstóls, áfallins kostnaðar og vaxta."

Lágmarksaldur lánþega verður einnig hækkaður og nú verður fólk að vera orðið 20 ára til að fá lán. „Því miður er það svo að yngstu lántakendurnir okkar hafa verið þeir einstaklingar sem hafa verið líklegastir til þess að lenda í vandræðum síðar meir," sagði Haukur Örn. „Aðildarfélög Útlána vilja því leggja sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir að veganesti þessa hóps út í lífið séu fjárhagsvandræði."

Greint var frá því í Fréttablaðinu á laugardaginn að fjárhagsstaða margra sjúklinga, sem leggjast inn á geðdeild Landspítalans að Kleppi, er þannig að þeir hafa ekki nokkurt efni á útborgun í sína eigin íbúð eða getu til að borga leigu. Þá er mikið um að sjúklingar taki smálán og er það orðið alvarlegt vandamál innan spítalans, þar sem töluvert er um að sjúklingar sem leggist inn séu með miklar smálánaskuldir á bakinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×