Enski boltinn

Lampard: Skrítið að spila hérna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lampard er goðsögn á Stamford Bridge.
Lampard er goðsögn á Stamford Bridge. vísir/getty
Frank Lampard fékk góðar viðtökur á Stamford Bridge þegar hann kom inn á sem varamaður 13 mínútum fyrir leikslok þegar Chelsea og Manchester City skildu jöfn, 1-1, í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Lampard þekkir hverja þúfu á Stamford Bridge en hann lék með Chelsea um 13 ára skeið, frá 2001 til 2014. Hann leikur nú með Manchester City og skoraði m.a. í fyrri leik liðanna á Etihad vellinum 21. september.

Hann var mátulega sáttur með stigið sem City fékk úr leik dagsins.

„Við höfum gefið eftir í síðustu leikjum en þetta var betra. Við erum ennþá í baráttunni um titilinn. Hvorugt liðið getur verið ósátt með úrslitin,“ sagði Lampard sem var ánægður með móttökurnar sem hann fékk á Brúnni í dag.

„Það var skrítið að spila hérna á Stamford Bridge. Ég var svolítið stressaður en ég er ánægður með viðtökurnar sem ég fékk frá stuðningsmönnum beggja liða.

„Þú veist aldrei hvernig viðtökur þú færð en stuðningsmenn Chelsea voru frábærir. Það var gaman að koma aftur og hitta fólkið sem vinnur þarna og leikmennina,“ sagði Lampard sem skoraði 211 mörk í 648 leikjum fyrir Chelsea.

Chelsea hefur fimm stiga forskot á Manchester City á toppi úrvalsdeildarinnar þegar bæði lið eiga eftir að spila 15 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×