Enski boltinn

Lallana: Við getum hirt Meistaradeildarsætið af United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Adam Lallana í leiknum gegn QPR.
Adam Lallana í leiknum gegn QPR. vísir/getty
Adam Lallana, leikmaður Liverpool, vill nota pirringinn sem skapast af því að þurfa standa heiðursvörð fyrir Chelsea á sunnudaginn til að knýja liðið áfram.

Chelsea tryggði sér fimmta Englandsmeistaratitilinn á sunnudaginn með 1-0 sigri á Crystal Palace og því þarf Liverpool-liðið að standa heiðursvörð fyrir leikmenn Chelsea fyrir leik liðanna á sunnudaginn.

„Við notum þetta til að hvetja okkur áfram. Chelsea verðskuldar að vera meistari. Taflan lýgur ekki. Það er besta liðið sama hvað hver segir,“ segir Lallana í viðtali við Liverpool Echo.

„Það eina sem ég veit er að við ætlum að eyðileggja veisluna. Við ætlum að reyna að vinna óvæntan sigur og skemma veisluhöld Chelsea.“

Liverpool er fjórum stigum á eftir Manchester United þegar þrír leikir eru til góða og Lallana er vongóður um að stela Meistaradeildarsætinu af erkifjendunum.

„Við vitum að sigurinn um síðustu helgi var mikilvægur. Það var pirrandi að ná ekki nema fjórum stigum út úr leikjunum gegn WBA, Hull og QPR,“ segir Lallana.

„Við værum alveg við hæla United, ef ekki fyrir ofan það, ef við hefðum spilað betur síðustu vikur. En við eigum góðan séns á að komast í Meistaradeildina og það trúa allir að fjórða sætið sé raunhæft,“ segir Adam Lallana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×