Viðskipti erlent

Lágt orkuverð tefur vindmyllur í Svíþjóð

Kristján Már Unnarsson skrifar
48 vindmyllur eru þegar risnar í Norður-Svíþjóð á vegum Svevind.
48 vindmyllur eru þegar risnar í Norður-Svíþjóð á vegum Svevind. Mynd/Svevind AB.
Uppbygging stærsta vindmyllugarðs Evrópu, við Piteå í Norður-Svíþjóð, gæti stöðvast vegna minnkandi áhuga fjárfesta á vindorku. Ástæðan er lágt orkuverð.  Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að verkefninu hafi verið frestað um óákveðinn tíma. Netmiðillinn Barentsobserver hefur einnig fjallað um málið.

Í Markbygden er áformað að reisa 1.100 vindmyllur fyrir árið 2021. Við bestu aðstæður gætu þær skilað allt að 12 teravattstundum raforku, sem er álíka mikið og allt virkjað vatnsafl á Íslandi. 48 vindmyllur eru þegar komnar upp en ekki hefur tekist að fjármagna næsta áfanga, sem eru 77 vindmyllur.

Talsmaður félagsins, Wolfgang Krupp, segir að 300 milljónir evra, eða um 50 milljarða íslenskra króna, vanti til að halda áfram. „Í versta falli verðum við að stöðva verkefnið og bíða betri tíma,“ er haft eftir honum. Áfram verður þó unnið við vegagerð og undirstöður þar til fjárfestar finnast.

Að verkefninu standa fyrirtækin Svevind og Enercon. Hver vindmylla verður 200 metra há og á að framleiða 2,3 til 7,5 megavött. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×