Innlent

Lagning þaks yfir fangelsi á hraða snigilsins

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá Sogni.
Frá Sogni. Vísir/Stefán
Þrátt fyrir að það hafi fengist fimmtán milljónir króna til að smíða þak yfir útigarð fangelsisins á Sogni í Ölfusi fyrir tveimur árum bólar ekkert á þakinu. Ástæðan er seinagangur hjá Framkvæmdasýslu ríkisins segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsins, og talar um hraða snigilsins í því sambandi.

Fangar á Litla Hrauni vinna ýmis störf innan fangelsins eins og í þvottahúsinu, númeraplötugerðinni og við að þrífa bíla svo eitthvað sé nefnt. Margrét segir að byggja þurfi við Litla Hraun fyrir vinnuaðstöðu fanga.

„Við erum þar með gamalt hús, fjós og hlöðu þar sem við erum að vinna í samstarfi við Íslenska gámafélagið að vinna endurnýjanlegan málm úr gömlum vélum og dóti. Hins vegar stendur hlaðan alveg tóm. Það þarf að gera við það húsnæði, sem kostar fimmtán til tuttugu milljónir en þeir peningar eru bara ekki til,“ segir Margrét.

En fréttirnar frá Sogni eru betri, þar er kominn peningur í framkvæmdir.

„Já, á Sogni erum við með útigarð sem stendur til að byggja yfir og fékkst fjárveiting fyrir tæpum tveimur árum í það, fimmtán milljónir. Það mál er ennþá hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Þetta er nú lítil framkvæmd að setja þak yfir útigarð svo hægt sé að skapa aðstöðu fyrir vinnu og líka fyrir íþróttir. Svona gengur þetta með hraða snigilsins en vonandi kemur það,“ segir Margrét ennfremur.

Hún segist vera ánægð með ástandið í fangelsunum.

„Ég tel að það sé verið að vinna mjög gott starf í fangelsunum þrátt fyrir skort á fjármagni þá er verið að nýta það mjög vel. Maður sér líka viðhorfsbreytingu hjá þeim sem eru vistaðir í fangelsum að vilja vinna með fangelsisyfirvöldum að gera góð fangelsi enn betri,“ segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×