Fótbolti

Lagerbäck gæti þurft að íhuga framtíð sína sem þjálfara norska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Vísir/Getty
Lars Lagerbäck, fyrrum þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins, er allt annað en ánægður með norska landsliðið sitt.

Lagerbäck hættir með íslenska landsliðið eftir EM í Frakklandi og tók síðan við norska landsliðinu í febrár síðastliðnum.

Lagerbäck er svo ósáttur með spilamennsku norsku landsliðsmannanna að hann segist vera að íhuga framtíð sína sem þjálfara norska landsliðsins.

Norska landsliðið er í 58. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA eða 36 sætum neðar en íslenska landsliðið. Lagerbäck segir að markmiðið hafi verið að komast inn á topp fimmtíu fyrir lok ársins.

„Við erum þar sem við eigum skilið að vera en það er samt ekki það sæti sem ég var að vonast eftir,“ sagði Lars Lagerbäck í viðtali við Dagbladet.

„Ef við förum ekki að bæta okkar leik þá mun ég horfa í spegil og velta því fyrir mér hvort sé rétti maðurinn í starfið,“ sagði hinn 69 ára gamli Lars Lagerbäck.

Norska landsliðið tapaði síðustu leikjum ársins á móti Makedóníu og Slóvakíu. „Að mínu mati voru síðustu tveir leikir góðir af því að ég fékk svörin sem ég var að leita eftir. Nú veit ég betur hvaða leikmenn ég get treyst á,“ sagði Lagerbäck.

Lagerbäck tók við norska landsliðinu þegar liðið var í 84. sæti á FIFA-listanum. Liðið hefur því farið upp um 26 sæti á þessu ári sem flestum þætti nú ágæt byrjun. Liðið hefur unnið þrjá af níu leikjum undir hans stjórn en tapað fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×