Fótbolti

Lagerbäck: Við verðum ekki undir í baráttunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck segir ljóst að öll lið séu með veikleika en að það sé erfitt að finna þá í franska landsliðinu, sem verður andstæðingur Íslands í 8-liða úrslitum á EM í Frakklandi á sunnudag.

„Frakkar eru með mikla og góða hlaupagetu í sínum liði og sterkir í návígjum,“ sagði Lagerbäck á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.

„En eins og við höfum séð þá verður þetta áhugaverður slagur. En það kæmi mér á óvart ef að myndum tapa fyrir þeim út af þeir hafa betur gegn okkur út af líkamlegum eða andlegum styrk. Ég er ekki viss um að þessir strákar kunni að tapa slíkum baráttum,“ sagði þjálfarinn.

Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson hefur verið í stóru hlutverki með íslenska liðinu á EM og hann á von á öðruvísi og erfiðari leik gegn Frakklandi en Englandi.

„Ég hugsa að Frakkarnir verði með meiri hraða á boltanum og að það verði erfiðara að verjast því. Þeir koma með góðar hraðaskiptingar og eiga sterka leikmenn. Við þurfum að vera tilbúnir að mæta því,“ sagði hann.

Frakkar eiga margar stórstjörnur í sínu liði en West Ham-maðurinn Dimitri Payet hefur blómstrað á EM til þessa. Það kemur líklega í hlut Birkis Más Sævarssonar að gæta hans og var hann spurður af frönskum blaðamanni hvernig honum hugnaðist það.

„Payet er leikmaður með mikil gæði. Ég sé hann í hverri viku og hann spilar nánast alltaf vel. Ég þarf bara að vera ákveðinn og láta hann ekki skera inn og skjóta með hægri. Ég þarf að koma honum á vinstri fótinn.“

„Það verður erfitt að finna veikleika á franska liðinu og Payet. Ég þarf bara að vera ákveðinn og leyfa honum ekki að stýra boltanum í netið,“ sagði Birkir Már

Lagerbäck segir enn fremur að ástand íslenska hópsins sé gott. Aron Einar Gunnarsson æfði lítið með liðinu í gær en verður með í dag.

„Hann gerði ekkert samkvæmt læknisráði í gær en það er ekkert vandamál. Allir 23 leikmenn eru heilir og hann mun æfa í dag. Ég býst ekki við því að neinn meiðist á æfingu því ef það gerist þá mun viðkomandi upplifa afar erfiða tíma.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×