Fótbolti

Lagerbäck: Skiptir litlu hverjir byrja hjá okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands, var upplitsdjarfur á æfingu íslenska liðsins á Bislett-leikvanginum í Ósló í gær, enda fyrsta æfingin eftir að allir 23 leikmenn EM-hópsins komu saman.

Fimm leikmenn fengu reyndar að hvíla á æfingunni enda hafa þeir spilað mikið með liðum sínum á Norðurlöndunum síðustu vikurnar.

Þess fyrir utan er Lagerbäck ánægður með stöðuna á liðinu. Meiðsli Kolbeins Sigþórssonar og Arons Einars Gunnarsson virðast ekki ætla að há þátttöku þeirra á EM í sumar og allar áætlanir þjálfarateymisins hafa gengið vel eftir.

Ísland mætir Norðmönnum svo á Ullevaal-leikvanginum í Ósló á morgun en Lagerbäck segir það ekki höfuðmál að tefla fram sterkasta liði Íslands í leiknum.

Sjá einnig: Lagerbäck: Allt mjög jákvætt

„Við sögðum við leikmenn í dag að þessir tveir æfingaleikir verða notaðir til að halda mönnum á réttu róli. Við verðum að taka til greina hvað hver og einn leikmaður hefur spilað mikið og hvernig þeim líður,“ sagði Lagerbäck við Vísi í gær.

„Það góða fyrir mig og Heimi [Hallgrímsson] er að allir leikmenn vita mjög vel hvernig við viljum spila. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.“

„Við munum því vonandi fá góða æfingaleiki og góðar æfingar áður en lokaundirbúningurinn hefst svo þegar við höldum til Annecy í Frakklandi.“

Hann segist þekkja vel til norska liðsins. „Við höfum mætt þeim áður og þó svo að við vitum ekki hvaða leikmenn fá að spila leikinn þekkjum við vel til leikstíl liðsins. Það mun því skipta litlu máli hvaða byrjunarliði við munum tefla fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×