Fótbolti

Lagerbäck: Of mikil bjartsýni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari, segir að íslenska liðið hafi nálgast leikinn með of mikilli bjartsýni - sérstaklega þegar kom að varnarleik liðsins.

Ísland tapaði í kvöld fyrir Kýpur ytra, 1-0, eftir að hafa unnið Noreg fyrir helgi. Strákarnir náðu þó aldrei að sýna sínar bestu hliðar í dag og kom sérstaklega lítið úr sóknarleik liðsins.

„Þetta eru gríðarlega mikil vonbrigði fyrir okkur," sagði Lagerbäck við Vísi eftir leikinn. „Ég tel að við höfum verið of bjartýsnir fyrir þennan leik. Við reyndum að pressa of mikið á þá og náðum aldrei að koma okkur almennilega inn í leikinn."

Hann hrósaði þó leikmönnum fyrir að leggja sig fram. „Þeir voru duglegir og lögðu sig fram. Og þrátt fyrir að við spiluðum ekki vel náðu þeir [Kýpverjar] ekki að skapa sér það mörg færi. Þeir áttu nokkur skot sem voru ágæt en Hannes [Þór Halldórsson, markvörður] spilaði virkilega vel í kvöld og sá um þetta."

Hann sagði að það hefði erfitt að koma leik liðsins í gang þegar að varnarleikurinn gekk jafn illa og raun bar vitni.

„Við náðum aldrei að verjast nógu vel og þá verður erfitt að byggja upp sóknir. Þeir gerðu vel með því að spila grimman sóknarleik og pressuðu okkur stíft. Það gerði okkur erfitt fyrir," sagði Lagerbäck.

„Við vorum að vinna boltann á erfiðum stöðum og fyrir vikið varð lítið úr því. Engu að síður hefðum við mátt hafa betri stjórn á spilinu okkar og sendingum. Þeir gerðu vel með því að loka á okkur en það kom meira til. Meira að segja föstu leikatriðin voru léleg hjá okkur en þau hafa verið mjög góð hingað til."

Hann segir að nálgun íslenska liðsins á leikinn hafi líklega verið röng. „Kannski vorum við fullbjartsýnir fyrir leikinn, bæði ég og leikmenn, eftir leikinn gegn Noregi. Við náðum aldrei að verjast vel í leiknum og þá var erfitt að hafa aðra þætti í lagi. Það er erfiðara að spila mótsleiki en vináttulandsleiki og við þurfum að draga okkar lærdóm af þessu. Þetta var bara ekki okkar dagur."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×