Innlent

Lagðist til svefns í geymslu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/ktd
Rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi barst lögreglunni tilkynning um mann á stigagangi húseignar í Garðabæ. Þegar lögreglan kom á vettvang var maðurinn búinn að brjótast inn í geymslu og leggjast til svefns. Maðurinn var töluvert ölvaður og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt er að ræða við hann.

Þá var tilkynnt um eignaspjöll við Ármúla rétt fyrir hálf tólf. Rúða var brotin í bifreið en engu stolið. Um klukkan þrjú var tilkynnt um eld í ruslagámi við Langholtsskóla. Slökkvilið kom á vettvang og er gámurinn eitthvað skemmdur.

Rétt rúmlega tólf var bifreið stöðvuð á Víkurvegi. Ökumaðurinn var ung kona og er hún grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna, fyrir að aka svipt ökuréttindum og vörslu fíkniefna, sem lögregla grunar að hafi verið ætluð til sölu. Konan var með ætluð fíkniefni á sér og einnig fundust ætluð fíkniefni við leit á heimili hennar.

Tíu mínútur fyrir þrjú var bifreið stöðvuð við Laugarnesveg. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur án réttinda. Þá var maðurinn með exi hjá sér í bifreiðinni sem var haldlögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×