Innlent

Lagði fram tillögu til að miðla málum í sjómannadeilunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Vísir/Eyþór
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, lagði fram tillögu til að miðla málum í sjómannadeilunni á fundum sínum með fulltrúum úr samninganefndum sjómanna og útgerðarmanna í sjávarútvegsráðuneytinu í kvöld.

Þetta herma heimildir Vísis en ekki fæst uppgefið hvað felst í tillögunni. Þá herma sömu heimildir að fundirnir í ráðuneytinu í kvöld hafi gengið vel.

 

Ætla má að sjómenn og útgerðarmenn sem nú sitja á fundi með ríkissáttasemjara í Karphúsinu fari nú yfir tillögu ráðherrans en á miðvikudag greindi Vísir frá þeirri tillögu Þorgerðar Katrínar að fara í heildstæða greiningu á skattalegri meðferð fæðispeninga og dagpeninga.

Segja má að það eina sem standi út af borðinu í samningaviðræðunum sé að sjómenn fái fæðispeninga sína skattfrjálsa en til þess þarf aðkomu ríkisins.

Sjómenn vildu ekkert tjá sig við fjölmiðla eftir fundinn með Þorgerði Katrínu í kvöld en Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði í samtali við fréttastofu að annað hvort yrði samið í kvöld eða nótt eða þá að það slitni upp úr viðræðunum.


Tengdar fréttir

Fundað vegna sjó­manna­deilunnar í sjávar­út­vegs­ráðu­neytinu

Samninganefnd sjómanna er nú á leiðinni inn til fundar við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegsráðherra, í ráðuneyti hennar. Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi komu til fundar í ráðuneytinu um klukkan 21 en ekki liggur fyrir hvort að sjómenn muni funda með útgerðarmönnum og ráðherra núna á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×