Viðskipti innlent

Lagði áherslu á að auka viðskipti við Brasilíu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnar Bragi með Rodrigo Tavares, yfirmanni skrifstofu alþjóðamála í Sao Paulo.
Gunnar Bragi með Rodrigo Tavares, yfirmanni skrifstofu alþjóðamála í Sao Paulo. mynd/aðsend
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ávarpaði í gær kynningarfund um útflutning sjávarafurða frá Íslandi til Brasilíu, sem Íslandsstofa stóð fyrir í Sao Paulo.

Fundurinn var haldinn í tengslum við heimsókn Gunnars Braga til Brasilíu en meginmarkmið hans er að efla viðskiptaleg tengsl landanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.

Fyrr um daginn fundaði Gunnar Bragi með Rodrigo Tavares, yfirmanni skrifstofu alþjóðamála í Sao Paulo en fylkið, sem telur 43 milljónir, hefur undanfarin ár gert tvíhliðasamninga við ríki um einstök mál.

Voru þeir sammála um að kanna ávinning af slíkum samningi en Tavares lýsti áhuga á samvinnu við Íslendinga í viðskiptamálum, sjávarútvegi, menningu og ferðamennsku.

Viðskiptaráðið í Sao Paulo aðstoðaði við undirbúning kynningarfundarins en til hans var boðið brasilískum innkaupaaðilum á sjávarafurðum sem einnig gátu fundað með fulltrúum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Frá Íslandi sóttu fundinn auk fulltrúa frá Íslandsstofu fulltrúar frá fyrirtækjunum Marel, Skinney-Þinganes, Vísi, Norlandia og Iceland Pelagic.

Í ræðu sinni lagði Gunnar Bragi megináherslu á nauðsyn þess að auðvelda viðskipti milli landanna og að hann teldi góða möguleika á að auka enn viðskipti. Þar væri fríverslunarsamningur mikilvægt tæki.

Gunnar Bragi upplýsti jafnframt að hann hefði á fundum með utanríkisráðherra og landbúnaðarráðherra landsins lagt til aukið samstarf og upplýsingagjöf um eftirlit með innflutningi á landbúnaðar- og sjávarafurðum.

Útflutningur sjávarafurða til Brasilíu jókst töluvert á árunum 2012 og 2013 samanborið við fyrri ár. Þannig nam útflutningurinn yfir 780 millj. kr. árið 2012 og yfir 626 millj. kr. árið 2013, samanborið við útflutning á bilinu 340-370 millj. kr. á ári síðustu þrjú ár þar á undan.

Langstærsti hluti útflutningsins, ríflega 70%, hefur verið á frystum ósöltuðum ufsaflökum. Innflutningur hefur hinsvegar verið meiri frá Brasilíu, helst súrál til álframleiðslu fyrir tæplega 45 milljarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×