Innlent

Lagasetning á ljósmæður hefur ekki verið til umræðu

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Vilhelm
Lagasetning á aðgerðir ljósmæðra hefur ekki verið til umræðu í ríkisstjórn. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við fréttamann Stöðvar 2 að loknum fundi ríkisstjórnar að Langaholti í Snæfellsbæ í dag.

Bjarni ítrekaði það sem hann hefur áður sagt um deilu ljósmæðra og ríkisins, það er að segja að samninganefndin hafi allt það svigrúm sem hún þurfi til að semja, svo lengi sem stöðugleika á vinnumarkaði sé ekki ógnað.

Boðað hefur verið til fundar í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins næstkomandi mánudag, 23. júlí, í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan 10.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði í samtali við Vísi að ekki væri boðað til fundarins vegna þess að lausn væri í sjónmáli, heldur vegna þess að sáttasemjara bæri lagaleg skylda til að halda fundi á að minnsta kosti tveggja vikna fresti.

Síðasti fundur í deilunni var síðastliðinn miðvikudag. Fyrir þann fund sagði Katrín Sif að ljósmæður hefðu lagt fram sínar lokakröfur sem þær myndu ekki hvika frá. Voru kröfurnar lagðar fram á fundi sem fór fram í vikunni áður.

Á samningafundinn í liðinni viku lagði samninganefnd ríkisins fram móttilboð en ljósmæður höfnuðu því. Sagði Katrín Sif að loknum fundi að deilan væri í algjörum hnút og tók Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, undir það í samtali við fréttastofu.

Sagðist hann jafnframt ekki sjá neinn möguleika á því að koma til móts við kröfur ljósmæðra sem hljóða upp á 17 til 18 prósenta launahækkun þegar allt er tekið saman, annars vegar launahækkun og svo 170 milljónir króna sem kæmu frá velferðarráðuneytinu í gegnum stofnanasamninga til að leiðrétta launasetningu ljósmæðra.

Í byrjun mánaðarins samþykktu ljósmæður yfirvinnubann sem tekur gildi á miðvikudag, þann 18. júlí. Frá og með þeim degi munu ljósmæður ekki vinna umfram vinnuskyldu sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×