Erlent

Lagarde sætir rannsókn vegna vanrækslu í starfi

Atli Ísleifsson skrifar
Christine Lagarde tók við embætti forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2011. Bernard Tapie var meðal annars eigandi franska knattspyrnuliðsins Olympique Marseille á árum áður.
Christine Lagarde tók við embætti forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2011. Bernard Tapie var meðal annars eigandi franska knattspyrnuliðsins Olympique Marseille á árum áður. Vísir/AFP
Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur tilkynnt að hún muni sæta rannsókn vegna vanrækslu í tengslum við svikamál í heimalandi sínu Frakklandi. Lagarde hefur ekki verið ákærð.

Lagarde hefur margoft verið yfirheyrð vegna málsins sem snýr að bóta­greiðslum til auðkýfings­ins Bern­ard Tapie árið 2008. Lagarde gegndi embætti fjár­málaráðherra í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta á þeim tíma. Í frétt BBC segir að Tapie hafi stutt Sarkozy í forsetakosningunum sem fram fóru árið 2007.

Lag­ar­de hef­ur ávallt neitað sök í málinu en árið 2007 vísaði hún langvinnri bótadeilu milli Tapie og hrunda rík­is­bank­ans Cred­it Lyonna­is í þriggja manna gerðardóm sem dóm­ar­ar skipuðu. Vilja rannsakendur meina að Tapie hafi hlotið bæt­ur í skiptum fyrir stuðning sinn við framboð Sarkozy.

Tapie var eigandi fót­bolta­fé­lag­sins Olymp­ique Marseille á árum áður og var dæmd­ur í fangelsi árið 1993 fyr­ir að hafa hagrætt úr­slit­um leiks í tengslum við veðmála­starf­semi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×