Erlent

Lagarde mun þurfa að mæta fyrir rétt

Atli Ísleifsson skrifar
Lagarde gegndi embætti fjármálaráðherra landsins á þeim tíma sem greiðslan var samþykkt.
Lagarde gegndi embætti fjármálaráðherra landsins á þeim tíma sem greiðslan var samþykkt. Vísir/AFP
Christine Lagarde, forstóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur verið ákærð vegna máls sem snýr að greiðslu franska ríkisins til franska auðjöfursins Bernard Tapie.

Lagarde gegndi embætti fjármálaráðherra landsins á þeim tíma sem greiðslan var samþykkt.

Áfrýjunardómstóll kvað upp úrskurð sinn í dag, en Lagarde hafði áður áfrýjað úrskurði annars dómstóls frá í desember.

Lagarde hefur verið ákærð fyrir vanrækslu í starfi, en Tapie voru greiddar 404 milljónir evra, um 54 milljarðar króna, í tengslum við sölu Tapie á íþróttavörumerkinu Adidas. Ríkisbankinn Credit Lyonnais hafði milligöngu um söluna og kvað Tapie bankann hafa svikið sig um háar fjárhæðir þegar salan fór fram á tíunda áratugnum.

Í frétt BBC segir að nú sé búist við að Lagarde mæti fyrir sérstakan dómstól fyrir ráðherra ríkisstjórnar.

Lagarde bar ábyrgð á að hafa skipað gerðardóm í stað þess að leita til dómstóla til að ná niðurstöðu í málinu. Lagarde hafnar því að hafa gert nokkuð rangt og ætíð haft hagsmuni franska ríkisins að leiðarljósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×