Erlent

Lagafrumvarp í Danmörku gagnrýnt víða

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Inger Stojberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku.
Inger Stojberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku. Vísir/EPA
Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, gagnrýnir umdeild lagafrumvarp sem samþykkt var á danska þinginu í dag. Frumvarpið heimilar yfirvöldum meðal annars að leggja hald á eigur flóttamanna.

Talsmaður hans, Stephane Dujarric, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið í kvöld þetta ekki rétta leið til að taka á móti flóttafólki. Sýna þurfi samkennd og virðingu enda hafi það gengið í gegnum mikla erfiðleika.

Mannréttindasamtök víða um heim hafa jafnframt gagnrýnt frumvarpið harðlega og telja það brjóta gegn mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, einnig lýst áhyggjum af frumvarpinu og segir það ekki samræmast dönskum hefðum.

Samkvæmt frumvarpinu fá yfirvöld heimild til að leita að fjármunum og hlutum í farangri flóttamanna og gera þá upptæka, fari verðmæti þeirra yfir tíu þúsund danskar krónur, eða um 190 þúsund íslenskar krónur. Flóttamenn fá að halda eigum sem hafa tilfinningalegt gildi, til dæmis giftingahringjum.

Frumvarpið var samþykkt með miklum meirihluta, eða 81 atkvæði gegn 27, og einn þingmaður sat hjá. Dönsk stjórnvöld segja breytingarnar nauðsynlegar til að stemma stigu við straum flóttafólks til landsins, þrátt fyrir að landamæraeftirlit hafi nýlega verið hert.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×