Lífið

Lætur Loga Bergmann líta vel út

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Raggi er góður í að finna skemmtilegt efni og myndbrot.
Raggi er góður í að finna skemmtilegt efni og myndbrot. Vísir/Vilhelm
„Ég er í ónefndu teymi sem býr til spurningarnar, síðan klippi ég innslög og bý til alla grafík, svo stjórna ég útsendingunni og klippi þáttinn þegar tökum er lokið,“ segir Ragnar Eyþórsson, starfsmaður Sagafilm. Hann gegnir ýmsum hlutverkum við gerð skemmtiþáttarins Spurningabombunnar en síðasta bomba vetrarins er sýnd á Stöð 2 á föstudag.

Þegar Ragnar, sem er ávallt kallaður Raggi Ey, stjórnar útsendingu er hann í beinu sambandi við þáttarstjórnandann Loga Bergmann.

„Ég er í eyranu á Loga. Þegar hann er með þokukenndan svip er hann pottþétt að hlusta á mig. Það má segja að efnislega láti ég hann líta vel út en útlitslega er örugglega hægt að þakka sminkunni og hárgreiðslumeistaranum fyrir það,“ segir Raggi og hlær.

Raggi lærði leikstjórn og handritagerð í Kanada og byrjaði sem lærisveinn hjá Sagafilm árið 2006.

„Ég var fenginn sem klippari í Loga í beinni því ég hafði sérstakt lag á því að finna vandræðaleg myndbrot af gestum þáttarins. Þegar Logi í beinni stökkbreyttist í Spurningabombuna héldu hæfileikar mínir áfram að blómstra,“ segir Raggi. Hann á einnig heiðurinn af því að koma verðlaunagrip þáttarins, bangsanum Bomba, til landsins.

„Ég og konan mín, Anna Björg, unnum Bomba í tívolíi í Ameríku og fluttum hann til landsins. Við sátum uppi með þennan tveggja metra stóra verðlaunagrip og fengum sérleyfi hjá flugfélaginu til að leyfa honum að fljóta með til landsins.“

Raggi lofar miklu fjöri á föstudaginn þegar síðasta bomba vetrarins fer í loftið en í liðunum eru Pétur Jesú og Hreimur á móti Ilmi Kristjánsdóttur og Gunna Helga.

„Það vill svo til að hún er á föstudaginn langa þannig að það var viðeigandi að hafa Pétur Jesú sem gest. Svo verður leyndarmáli um kallarann okkar uppljóstrað til dæmis. Þetta verður stórkostleg lokabomba.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×