Erlent

Læknir sóttur til saka vegna barnarána í valdatíð Francos

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ínes Madrigal er formaður samtaka barnanna, sem tekin voru frá mæðrum sínum í valdatíð Francos, og aðstandenda þeirra.
Ínes Madrigal er formaður samtaka barnanna, sem tekin voru frá mæðrum sínum í valdatíð Francos, og aðstandenda þeirra. Vísir/AFP
Réttarhöld yfir hinum 85 ára gamla lækni Eduardo Vela, sem sakaður er um að hafa rænt nýfæddri stúlku af skjólstæðingi sínum seint á sjöunda áratugnum, hefjast í þessari viku. Vela verður þar með sá fyrsti sem svarar til saka vegna umfangsmikilla barnarána sem viðhöfð voru á Spáni í valdatíð einræðisherrans Fransiscos Francos, og einnig eftir andlát hans árið 1975.

Tiltölulega stutt er síðan hulunni var svipt af ránunum en talið er að yfir þrjú hundruð þúsund börn hafi verið tekin frá mæðrum sínum, sem voru álitnar afturreka í samfélaginu vegna fátæktar, hjúskaparstöðu eða stjórnmálaskoðana sinna, og komið fyrir hjá fjölskyldum sem studdu ríkisstjórn Francos.

Vela er sakaður um að hafa tekið Inés Madrigal, sem þá var nýfædd, frá blóðmóður sinni vorið 1969. Hann fól annarri konu, sem þá var á fimmtugsaldri, umsjá stúlkunnar og sú gekk Madrigal í móðurstað.

Verði Vela sakfelldur á hann yfir höfði sér ellefu ára fangelsisdóm. Hann hefur m.a. verið ákærður fyrir að ræna barni, staðfesta fæðingu sem aldrei átti sér stað og skjalafals.

Madrigal er nú 49 ára en hún segist hafa komist að hinu sanna um uppruna sinn þegar hún varð 18 ára. Þá hafi móðir hennar ætíð stutt hana í leitinni að blóðmóður sinni. Í frétt breska dagblaðsins The Guardian segir jafnframt að Madrigal búist ekki við því að Vela segi satt og rétt frá.

„Þetta er mjög mikilvægt málefni vegna þess að í sextíu ár vorum við „barnastórmarkaður“ Evrópu og Suður-Ameríku, ekki bara Spánar,“ var einnig haft eftir Madrigal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×