Innlent

Læknaskortur er viðvarandi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Geir Gunnlaugsson landlæknir.
Geir Gunnlaugsson landlæknir.
Landlæknir segir áhyggjuefni að íbúum á hvern starfandi lækni skuli fara fjölgandi hér á landi.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær eru nú 295 íbúar á hvern starfandi lækni en það stefnir í að þeir verði 390 eftir áratug. Hann segir læknaskort hér á landi óviðunandi.

„Þetta er misslæmt eftir læknahópum, það vantar til dæmis fleiri heimilislækna, krabbameinslækna og röntgenlækna,“ segir Geir Gunnlaugsson landlæknir.

„Það verður að finna lausn á þessum málum. Það verður að bæta starfsumhverfi lækna,“ segir hann og bætir við: „Það er ekkert sjálfgefið að læknar komi heim frá námi erlendis. Það eru breytt viðhorf og ef við ætlum að fá lækna til starfa hér á landi þarf að bæta starfsumhverfi þeirra,“ segir Geir.

Landlæknir segir að hættuástand hafi ekki skapast vegna læknaskortsins.

„Það er ákveðinn skortur á læknum og þegar kemur að krabbameinslækningum og röntgenlækningum, þá erum við á þunnum ís,“ segir landlæknir.

„Það er viðvarandi læknaskortur á Landspítalanum. Útlitið er ekki glæsilegt, það tekur langan tíma að mennta lækna og margir eru að fara á eftirlaun,“ segir Niels Ch. Nielsson, aðstoðarlækningaforstjóri á sjúkrahúsinu. „Ástandið er einna verst á krabbameins- og röntgendeildinni,“ segir hann.

Niels segist telja að það séu nógu margir sem leggja stund á læknanám, bæði hér heima og erlendis, til að útrýma læknaskorti hér á landi.

„Vandamálið er bara að læknar fást ekki til starfa hér á landi. Það eru til dæmist nógu margir krabbameinslæknar til að manna deildina hjá okkur en þeir fást ekki til starfa,“ segir Niels.

Ástæðurnar fyrir því að læknar fást ekki til starfa á spítalanum segir Niels ýmsa samverkandi þætti. Vinnuálag sé einn þáttur en það sé mjög mikið.

„Spítalinn er á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu í um 100 húsum. Það er verið flækjast með sjúklingana fram og til baka og læknum finnst tími þeirra nýtast illa af þeim sökum,“ segir Niels. Svo eru það launin, þau eru lægri á Íslandi en annars staðar í heiminum.

Í grein sem Kristófer Sigurðsson læknanemi skrifaði í Fréttablaðið um helgina kom fram að læknar sem leggja stund á sérfræðinám í Svíþjóð fá 671 þúsund krónur á mánuði en á Íslandi fá sérfræðinemar 423 þúsund. Laun sérfræðilækna eru tæp 1.100 þúsund í Svíþjóð en tæp 700 þúsund á Íslandi.

Geir segir að eitt það brýnasta hvað varðar úrbætur sé að fjölga í stétt heimilislækna en tugi þeirra vantar til starfa til að manna allar lausar stöður. „Eitt af stóru verkefnunum í heilbrigðisþjónustunni er að hlúa að grunnþjónustunni,“ segir Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×