Innlent

Læknar segja launakröfur hóflegar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Enginn samningafundur er fyrirhugaður fyrr en á mánudaginn og enn ber mikið í milli í samningaviðræðunum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að læknar færu fram á margra tuga prósenta launahækkun. Ekki verði samið á þeim forsendum þar sem slíkt geti komið kjaramálum í almennt uppnám.

,,Við höfum aldrei farið í grafgötur með það eða í launkofa að við erum að fara fram á umtalsverðar hækkanir. Það er ekki okkar mat að þetta sé óraunhæft, annars myndum við aldrei setja fram þær kröfur sem við gerum í kröfugerðinni, en við höfum ekki farið út í prósentur í fjölmiðlum,“ segir Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands.

Hann segir lækna óánægða með launakjör sín. Læknar hafi flúið land og aðrir ekki snúið aftur heim að námi loknu. Þannig séu að myndast göt í kerfinu. Allir þekki umræðuna. Erfitt sé að manna deildir á spítalanum eins og krabbameinsdeildina og þá séu læknastöður í heilu landshlutunum mannaðar með afleysingalæknum. Þetta telji félagið ekki forsvaranlegt til lengdar.

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að verkfall hefjist á miðnætti annað kvöld. ,,Ég held að það sé ekkert sem geti afstýrt því úr þessu,“ segir Þorbjörn Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×