Lífið

Læknar geta verið verstu sjúklingarnir

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Gunnar Bjarni Ragnarsson
Gunnar Bjarni Ragnarsson VÍSIR/ANTON
Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítalanum, er í veikindaleyfi eftir að hafa greinst með heilaæxli. Hann snýr aftur til vinnu nú í október. 

Það er fróðleg upplifun að vera í hlutverki sjúklingsins. Það mun breyta ýmsu í nálgun á starfið. Ég upplifi aukaverkanir af lyfjum sem ég ávísa og kannski gerði mér ekki fulla grein fyrir hverjar væru. Ég var ör eftir að hafa verið settur á stera til að minnka heilabjúg vegna æxlisins. Ég kynntist því hvernig er að greinast sem var ekki auðvelt,“ útskýrir Gunnar Bjarni. „Það sem mér fannst kannski verst var að vera kippt úr sambandi, úr daglega lífinu. Þá fer sorgarferli í gang vegna þess að maður er búinn að missa gamla lífið sitt. Ég upplifði alls kyns tilfinningar,  samviskubit yfir því að vera ekki í vinnu.“

Hugsanlega ólæknandi 

Það voru álagstímar á spítalanum þegar Gunnar veiktist. „Það var nýbúið að setja lög á verkföll heilbrigðisstétta. Ástandið var erfitt. Verkföllin voru eitt erfiðasta tímabil sem ég hef gengið í gegnum sem læknir. Heilbrigðiskerfið er ein keðja þar sem allir skipta máli. Þegar mikilvægar stéttir fara í verkfall þá versnar þjónustan.“



En Gunnar segist hafa verið heppinn. „Nýr krabbameinslæknir kom til starfa í sömu viku og ég veiktist og hann tók við mínum sjúklingum. Svo á ég frábært samstarfsfólk sem hefur lagt meira á sig til að hlutirnir gangi upp. Það hjálpar að vita að sjúklingarnir eru í góðum höndum.“

Hann lýsir nóttinni þegar hann greindist. „Ég hugsaði þetta alla leið. Að þetta væri hugsanlega ólæknandi sjúkdómur. Ég vaknaði upp í sjúkrabíl eftir að hafa fengið flog og datt strax í hug að það hefði komið til vegna heilameinvarps. En ég var svo heppinn að æxlið, sem var býsna stórt, var skurðtækt.”

Er það rétt sem maður heyrir að læknar séu verstu sjúklingarnir?



„Það er ábyggilega heilmargt til í því, en ég reyndi að hegða mér,“ segir Gunnar Bjarni og hlær.

Óttaðist áhrif geislanna

Hann segir þjónustuna sem hann fékk hafa verið frábæra. „Neyðarlínan, sjúkraflutningsmenn, starfsfólk á bráðamóttöku, röntgendeild, skurðstofu, gjörgæslu og legudeild og svo framvegis. Allir mynduðu eina keðju sem aldrei rofnaði. Öll aðgerðin var kortlögð. Það var metið með nýjustu tækni hvort æxlið eða aðgerðin hefðu áhrif á stöðvar í heilanum. Það virðist ekki vera. Ég ákvað að fara ekki í geislameðferð þar sem ég óttaðist að geislarnir myndu hafa áhrif á vitsmunalega getu mína. Ég er mjög bjartsýnn á að krabbameinið sé læknað.“

Gunnar fór í aðgerðina í fyrri hluta júlí og undirgengst nú lyfjameðferð til að minnka líkur á endurkomu meinsins. „Aðgerðin var erfið en ég hef jafnað mig ágætlega. Lyfjameðferðin dregur úr þreki og þess vegna er ég í veikindaleyfi. En ég er allur að koma til og hlakka til að fara aftur að vinna.“

Verðum að auka lyfjakaup

Talið berst að heilbrigðiskerfinu á Íslandi, hvar það standi í alþjóðlegum samanburði. Gunnar Bjarni segir að árangur hafi verið góður en vel þurfi að halda á spöðunum til að fylgja hraðri þróun í læknisfræði, sérstaklega þegar kemur að upptöku nýrra og oft mjög dýrra lyfja.

„Þetta er ekki einfalt. Langflest lönd takmarka upptöku á dýrum lyfjum að einhverju leyti. Ég skil alveg að fjárveitingarvaldið vilji aðeins vera á bremsunni, en við verðum að halda í við þróun. Það hafa orðið miklar framfarir í þróun lyfja.“ Gunnar Bjarni nefnir sem dæmi ný gigtarlyf og lyf við lifrarbólgu C. „Þessi nýju lyf þýða að margir sem voru áður öryrkjar vegna gigtar eru við miklu betri heilsu en áður og ný lyf við lifrarbólgu C gera það mögulegt að meðhöndla sjúklinga með betri árangri og minni aukaverkunum en áður. Lækning á lifrarbólgu C getur komið í veg fyrir alvarlega lifrarsjúkdóma. Í krabbameinsmeðferðum er líka framþróun. Ég tel að við verðum að auka framlag til lyfjakaupa á hverju ári, þannig að við getum jafnt og þétt tekið upp ný lyf. Öðruvísi getum við ekki veitt þjónustu á pari við þau lönd sem við berum okkur saman við.“

En hvar stöndum við núna í samanburðinum? „Samanburður er erfiður, ef við berum okkur saman við Danmörku þá erum við ekki á pari. Þeir hafa verið duglegir  að taka upp ný lyf fljótt. Í fyrstu drögum að fjárlögum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir mjög lítilli aukningu til lyfjakaupa. Ég kvíði því óneitanlega að það þýði að það verður mjög erfitt að taka upp ný lyf. Ég óttast að ef við förum að dragast meira aftur úr, þá verði æ erfiðara og dýrara að halda í við þróunina.“

Gunnar Bjarni er yfirvegaður í málflutningi sínum, sem ekki er alltaf raunin þegar um spítalann er rætt. Sjaldan hefur Landspítalinn verið jafn mikið í deiglunni og árið 2015.

„Í það heila erum við að veita ágætis þjónustu. En þetta er kerfi sem þarf að halda við. Ef við viljum vera áfram í fremstu röð, sem við höfum verið, þá má ekki slá slöku við.“

Tryggingarfélög mega ekki ráða



Talið berst að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hverju myndi það breyta?

„Við höfum búið við almannatryggingakerfi þar sem allir eiga að vera jafnir og mér þætti slæm þróun ef sjúklingar þyrftu að fara að greiða jafnvel margar milljónir fyrir lyf og þjónustu. Það myndi leiða til óþolandi mismununar. Það kallar líka á einkatryggingakerfi, sem ég þekki frá Bandaríkjunum þar sem ég var í sérnámi og vann sem sérfræðingur. Það er óhagkvæmt kerfi sem við viljum ekki taka upp. Þar þekkti maður dæmi þess að meðferðir voru ákvarðaðar eftir því hjá hvaða tryggingafélagi sjúklingurinn var. Það er nógu flókið og dýrt að veikjast eins og kerfið virkar á Íslandi í dag, sem er í raun mikið áhyggjuefni.“

Gunnar er þeirrar skoðunar að besti árangur náist þegar þverfagleg samvinna er góð. „Þegar sjúklingar greinast til dæmis með lungnakrabbamein þá hittast krabbameinslæknar, lungnaskurðlæknar, meinafræðingar, lungnalæknar og röntgenlæknar reglulega og ræða flest tilfellin. Svo er haft náið samráð um flest krabbamein sem greinast. Með því að skapa svona þjónustu við sjúklinginn eru bestu ákvarðanirnar teknar. Ef einkavæðing þýddi að þessi samfella rofnaði væri það óhagkvæmt. Hagræðið felst í því að sérfræðingarnir starfa náið saman, á einum stað.“

Eigum ekki að elta Bandaríkin

Hann segir einhverja þætti heilbrigðisþjónustunnar þegar einkavædda. „Stór hluti eftirlits sjúklinga með krabbamein fer þegar fram á einkareknum stofum. Það er svo sem ekkert um það að segja, það hefur gefist ágætlega. En ég er þeirrar skoðunar að allar meiriháttar ákvarðanir og þjónusta við sjúklinga með alvarleg krabbamein eigi að fara fram á spítala.“

Talið berst aftur að kerfinu í Bandaríkjunum.

„Ég vil ekki sjá þessa fjármögnunarleið í gegnum einkatryggingar. Það er svo óréttlátt kerfi enda eru þeir að eyða miklu púðri í það að draga úr þeirri mismunun sem kerfið þar veldur. Ég kynntist því úti að einstaklingar, sem voru ótryggðir, komu mjög illa fjárhagslega út úr veikindum, urðu jafnvel gjaldþrota. Sem lækni finnst mér þetta óþægilegt. Að þurfa að pæla í fjármunum um leið og þú pælir í hvernig sé best að hjálpa viðkomandi.“

Ræturnar á Íslandi

Gunnar flutti heim og fór að vinna á Landspítalanum árið 2011. En hvernig datt honum í hug að koma heim?

„Það voru persónulegar aðstæður sem réðu því, og ég vissi alveg hvað ég var að koma mér í,“ segir Gunnar og hlær. „Ræturnar liggja hérna, mig langaði að koma heim. Ég vildi að strákarnir mínir byggju á Íslandi. Það var mjög erfitt fyrir þá að flytja heim, við bjuggum úti í níu ár. Það var spurning um að fara þá eða aldrei.“

Síðan Gunnar kom heim hafa þrír læknar, sem sinntu lyfjameðferð krabbameina, hætt en um fimm talsins síðan 2008. „Ef við miðum okkur við Svíþjóð ættum við sennilega að vera tvöfalt fleiri. Þetta er óneitanlega mikið álag og getur verið slítandi. En við höfum haldið uppi öflugri starfsemi, sem hefur tekist vegna þess að allt starfsfólkið hefur lagt meira á sig.“

Mannlegi þátturinn dró hann að

Hann segir mikilvægt að byggja nýjan Landspítala sem fyrst. „Þetta snýst um sjúklingana, að þeir geti verið á spítala við viðunandi aðstæður. Ef það er fljótlegast og hagkvæmast að byggja við Hringbraut, þá vil ég að við drífum í því.“

Gunnar Bjarni talar um starfið af ástríðu. „Eitt af því sem heillaði mig við krabbameinslækningar var mannlegi þátturinn. Maður fylgir sjúklingum lengi eftir og kynnist þeim vel og fjölskyldum þeirra. Þau samskipti gefa mér mikið, sérstaklega þegar þau ganga vel. Þegar samskiptin ganga ekki vel er það aftur á móti mjög erfitt.“

Hann segir sitt hlutverk aðallega felast í því að veita þá meðferð sem gefur bestan árangur og reyna að viðhalda sem bestum lífsgæðum á meðan. „Ávinningurinn af meðferðinni, sem er gefin, þarf að réttlæta þá skerðingu lífsgæða sem getur orðið þegar sjúklingar undirgangast þungar meðferðir. Það er ekki bara hægt að mæla ávinning af meðferð í lengra lífi. Krabbameinslækningar eru langhlaup. Það er hröð og mikil þróun í þessu fagi. Það er alltaf verið að taka smá skref í rétta átt. Best væri ef hægt væri að fyrirbyggja krabbamein með forvörnum og snemmgreiningu eða jafnvel bólusetningu, eins og raunin er með leghálskrabbamein. Það er líklega langt í land í þeim efnum en það er svona útópíska markmiðið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×