Innlent

Læknar greiða atkvæði um verkfallsboðun

Gissur Sigurðsson skrifar
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands. Vísir/GVA
Læknar í Læknafélagi Íslands og skurðlæknafélagi Íslands ákváðu eftir árangurslausa fundi við fulltrúa ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í gærkvöldi, að ganga til kosninga um verkfallsboðun. Þeir telja fullreynt að ræða við ríkið eftir venjulegum leiðum.

Læknar eru orðnir langþreyttir á því sem þeir kalla áhugaleysi stjórnvalda á að tryggja heilbrigðisþjónustuna og samningar hafa verið lausir við bæði félögin til langs tíma. Þeir benda á að nýútskrifaðir læknar fáist vart til starfa hér á landi, meðalaldur lækna hér á landi fari ört hækkandi og aukið álag skapi hættu á mistökum. Afleiðingar af verkföllum yrðu víðtækar að sögn Þorbjörns Jónssonar, formanns Læknafélags íslands.

„Ef að læknar fara í verkfall verður náttúrulega skert þjónusta þann tíma sem verkfallið varir. Við munum auðvitað reyna að tryggja það eftir fremsta megni að það býði enginn skaða af verkfallinu. Við leggjum áherslu á það,“ segir Þorbjörn.

Aðspurður hvort aðeins yrði sinnt bráðatilvikum á verkfallstímanum segir Þorbjörn: „Það sem myndi flokkast undir einhvers konar valþjónustu, það myndi þurfa að bíða.“

Kynningarfundur fyrir lækna fer fram á fimmtudagskvöld og mun þá atkvæðagreiðslan hefjast. Að óbreyttu hefst verkfall þann 27. október að sögn Þorbjörns.


Tengdar fréttir

Félagsmenn kjósa um verkfall

Stjórn læknafélagsins kom saman til fundar síðdegis í gær þar sem rætt var um væntanlegar verkfallsaðgerðir meðal félagsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×