Innlent

Læknanemar á suðurafrísku sjúkrahúsi: Nýársnóttin reyndist skrautleg

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fylgi maður nokkrum reglum er maður óhultur segja Oddur, Sigrún og Daníel en þau fara fögrum orðum um Suður-Afríku.
Fylgi maður nokkrum reglum er maður óhultur segja Oddur, Sigrún og Daníel en þau fara fögrum orðum um Suður-Afríku. MYND/IAN CARBUTT
Veikindin og meiðslin sem sjúklingar koma með hingað eru allt önnur en við eigum að venjast heima, segja þrír íslenskir læknanemar sem starfa á bráðamóttöku suðurafrísks sjúkrahúss um þessar mundir.

Þau Oddur Björnsson, Sigrún Lína Pétursdóttir og Daníel Arnarson, öll læknanemar á 6. ári, héldu utan 29. desember síðastliðinn til að starfa á Edendale-sjúkrahúsinu. Það er staðsett skammt frá Pietermaritzburg á austurströnd Suður-Afríku. Umrætt sjúkrahús varð fyrir valinu þar sem yfirlæknir bráðamóttöku hér heima og úti höfðu forðum starfað saman í Nýja-Sjálandi. Dvölin er liður í sex vikna valkúrsi sem flestir nema nýta til að kynnast öðrum aðstæðum.

„Við erum á ríkisreknu sjúkrahúsi en þau eru ekki jafn „fancy“ og hin einkareknu. Sjúklingarnir sem hingað koma búa flestir við mikla fátækt,“ segja þau. Mikið sé um ofbeldi, berkla og stungu- og skotsár. Þá er hlutfall HIV-smitaðra með því hæsta sem þekkist í heiminum.

„Hér er góður tækjakostur, læknar vel menntaðir og góð kennsla. Þó fólkið sé fátækt þá fær það góða þjónustu,“ segir Sigrún. „Við vinnum í raun í svipuðu umhverfi og á Íslandi en erum með allt öðruvísi sjúklingahóp.“

„Áramótin voru til dæmis rosaleg. Þá fóru margir á djammið og það var mikið um stunguárásir og slys sökum ölvunaraksturs. Við saumuðum mörg sár á þessari vakt,“ segir Oddur.

„Þetta endaði í raun þannig að við vorum sett hvert í sitt herbergið og fólk með stungusár myndaði röð til okkar,“ segir Daníel. Hann lýsir aðstæðunum sem hálf súrrealískum enda hnífstungur fátíðar á Íslandi.

„Mjög margir minna veikir voru sendir heim því það var ekki pláss vegna fólksins með stungusárin. Við saumuðum nánast alla nóttina. Það var mjög lærdómsríkt.“

Samfélagið úti er allt annað sökum fátæktarinnar. Nemarnir segja til dæmis að það sé ekki skynsamlegt að vera á ferli eftir sólsetur. Það kom eitt sinn fyrir að öðrum læknanema var rænt eftir vakt þegar hann fór einsamall heim eftir miðnætti. Lögregla fann hann eftir nokkrar klukkustundir en hann hlaut engan skaða af.

„Ef maður hagar sér skynsamlega, veifar ekki símanum og er aldrei einn úti á kvöldin þá er maður öruggur,“ segir Sigrún. „Yfirleitt er fólkið hér þó mjög indælt og vill allt fyrir mann gera.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×