Skoðun

Læknalaun og lífsgæði

Sigrún Júlíusdóttir skrifar
Ekki aðeins vega nú sitjandi stjórnvöld að menningu og menntakerfi íslensks samfélags heldur líka heilbrigðisþjónustunni. Það má ekki á milli sjá hver þessara grunnstoða er mikilvægust, en óhætt er að fullyrða að gengi heilbrigðiskerfisins er upp á líf og dauða, bæði sjúklinga og starfsfólks. Auk almannahagsmuna varðar það virðingu og velferð þeirra fagstétta sem þar starfa.

Vanræksla og gildismat stjórnvalda

Svo rammt hefur kveðið að vanrækslu stjórnvalda í viðhaldi, endurgerð og nýbyggingum fyrir heilbrigðisþjónustu ásamt aðgerðaleysi í endurnýjun tækjabúnaðar og innleiðingu nýrra meðferðarleiða, að stefnir í starfsstol. Afleiðingarnar hafa meðal annars komið fram í því að lækningaliðið sýkist líkamlega af spillingu húsakostsins og sífellt fleiri sýna einkenni kulnunar eða kikna undan álagi, þrengslum, fjárþrengingum og úrræðaleysi. Tíðni vinnuglapa og mistækra ákvarðana eykst við slíkar aðstæður og veldur í senn skaða, vantrausti og óöryggi meðal notenda þjónustunnar. Ekki er þörf á að mála upp fleiri hliðar á stöðunni. Hún blasir við öllum sem þar starfa, þeim sem sækja þjónustuna og þeim sem fylgjast með samfélagsumræðu lærðra og leika.

Í launadeilu lækna og ríkisins er nú tekist á um hvort koma eigi til móts við launakröfur lækna eða missa þá úr landi. Þetta er nokkuð einfölduð uppsetning á siðferðisklemmunni og lýsir takmarkaðri tvenndarhugsun. Vandinn er flóknari og liggur dýpra. Lausnin gæti hins vegar verið önnur og nærtækari. Í rauninni snýst hún um skipulag, starfsaðstæður, verðmætamat og lífsgæði, og hún á við um allt fagfólk í velferðarþjónustu.

Enginn meðal sérhæfðs fagfólks kýs í dag að vinna við þær aðstæður sem lýst var hér að framan. Allra síst þeir sem kynnst hafa af eigin raun vel rekinni heilbrigðisþjónustu annars staðar, hátæknisjúkrahúsum og fagumhverfi þar sem ríkir eðlilegt aðhald, hvatning og eftirlit með hinum ólíku faghópum. Slíkt felur m.a. í sér að ótakmarkaður vinnutími er ekki leyfður, krafist er endurmenntunar og þannig hvatt til viðhalds og endurnýjunar þekkingar og eigin krafta. Þetta endurspeglar virðingu fyrir manngildi og opinberri stefnumörkun um heilsu- og fjölskylduvernd.

Vinnukvöð, heilsa og mörk

Á Íslandi hefur vinna löngum verið talin dyggð, því meiri vinna, því meiri hamingja. Því meira sem hægt er að afla því meira sé hægt að berast á. Því meira sem þjösnast er áfram því meiri sé hetjuskapurinn. Sú háttsemi snýst þó í reynd oft upp í andhetjuhátt, eins og svo vel er lýst í stolttákni þjóðarinnar Sjálfstæðu fólki. Í bændasamfélaginu var viðtekið að sofa þann (myrka) hluta ársins sem ekki tók til bjargræðistímans þegar unnið var „myrkranna á milli“. Þar stýrði náttúran. Á öldum áður voru kjörin kröpp og oft komust menn í lífsháska við að draga björg í bú – til að lifa af. Liður í aukinni mannvirðingu og menningu þessarar þjóðar var að setja svokölluð vökulög árið 1921 um sex tíma svefn til verndar sjómönnum sem þurft höfðu að nota vökustaura til að sofna ekki ofan í veiðina eftir óheyrilegar vinnutarnir, barning, vosbúð og meðfylgjandi doðasótt – oft nær hvíldarlaust allt árið. Við erum sem betur fer almennt ekki stödd þar lengur. Þó eru nú dæmi um mistök í heilbrigðisþjónustu þar sem hin vökula fagábyrgð hefur sljóvgast vegna svefnleysis, ofurálags eða langtíma starfsþreytu, og umhverfst í doða. Stundum tengist þetta menningarlegu misgengi, gömlum gildum um þrautseigju og þor, en þó líklega mest vanþróuðum starfsaðstæðum, stjórnleysi og skorti á mannafla samhliða góðum vilja og grandaleysi fagfólks.

Enginn meðal notenda þjónustunnar kýs í dag að setja líf sitt og heilsu í hendur þeirra sem búa við þannig starfsaðstæður að líkja má við bráðabirgða-sjúkraskýli og álag sem er í ætt við stríðsástand. Upplýstur almenningur lætur ekki segja sér að þetta sé sæmandi fyrir fagfólk eða boðlegt fyrir eina ríkustu þjóð heims. Allra síst sá hópur sem hefur búið annars staðar á Norðurlöndunum við nám eða störf og notið þar lögverndaðrar velferðarþjónustu, meðal annars um búnað, vinnutíma og málafjölda starfsmanna.

Fagmennska, frítími og fjölskyldulíf

Á Íslandi hafa gæði fjölskyldutengsla lengst af verið í hávegum höfð og við stærum okkur af öflugra fjölskyldunetverki en nágrannalöndin. Vitað er úr rannsóknum að mikil vinna og starfsmetnaður rýrir síður gæði hjónabands og foreldrahlutverka ef tími og skilningur er til að huga að jafnvægi heildarmyndar vinnu-frítíma-einkalífs og forgangsraða í þágu hjónabands og fjölskyldu. Einnig að farsæl sambúð, persónurækt, vinatengsl og frístundaiðkun tryggja heilbrigði og önnur lífsgæði.

Enginn sem virðir eigin þarfir kýs í dag að geta ekki ræktað hjónaband og einkalíf, sinnt börnum sínum og auðgað líf sitt með félagslegum samskiptum vegna of langrar vinnuviku, álags og ofþreytu. Allra síst þeir sem hafa kynnst þeim verðmætum sem felast í hæfilega langri vinnuviku og nægilegum frítíma til að endurhlaða orkuna. Og, enn síður þeir sem hafa notið þeirra lífsgæða í öðrum löndum að skipuleggja barneign, eignast mörg börn, og hafa tíma til að koma heim til þeirra á venjulegum vikudögum meðan þau eru ennþá vakandi. Er þá ónefnt gildi þess að geta tímabundið strokið um frjálst höfuð án bakvakta og áreitis farsíma og tölvu, þannig að hugurinn tæmist og þrekið eflist til að geta stutt við heilsu og velferð annarra.

Eitt af hlutverkum stjórnmálamanna er að hlusta á fólk og leysa mál á grundvelli þekkingar og skilnings á hjartslætti tímans.




Skoðun

Sjá meira


×