Skoðun

Lækkun skatta af leigutekjum – allra hagur!

Sigríður Hrund Guðmundsdóttir skrifar
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er lagt til að frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum einstaklinga af íbúðarhúsnæði hækki úr 30% í 50%. Þetta þýðir með öðrum orðum að virk skattbyrði leigutekna gæti þar með lækkað úr 14% í 10%.

Eitt helsta umkvörtunarefni leigjenda auk leiguverðs er óöryggi. Það hefur verið mikið rótleysi á þessum markaði og fólk veigrar sér einnig við að kvarta. Ef jafnframt yrðu sett skilyrði um tímalengd leigusamninga samhliða frekari skattalækkunum, þá væri það til þess fallið að styrkja stöðu leigjenda. Ein ástæða þess að skortur hefur verið á leiguhúsnæði er að leigjendur hafa séð sér hag í að leigja til ferðamanna gegn háu leigugjaldi.

Þessar tillögur eru því til þess fallnar að bæta stöðu bæði leigusala og leigutaka og ætti því að koma báðum til góða. Stór hópur fólks er í þeirri stöðu að geta ekki keypt sér eigin húsnæði t.a.m. ungt fólk sem stenst ekki greiðslumat eða á ekki fyrir fyrstu útborgun í íbúð.

Mikill kostnaður fylgir því að reka fasteign, sérstaklega ef hún er skuldsett. Með því að skattleggja leigu er verið að stuðla að því að leigusalar krefjist hærra leiguverðs til að standa undir þeim skattgreiðslum. Fjármagnskostnaður er mun hærri hér en í nágrannalöndunum og því eru skattaívilnanir kjörin leið stjórnvalda til að vinna gegn óæskilegum áhrifum hás fjármagnskostnaðar á leiguverð. Leigusalinn gæti þá séð sér hag í því að leigja út íbúðina ódýrar í langtímaleigu en þó með sömu arðsemi og áður.

Svo er ákveðinn hópur eldra fólks sem býr eitt í stóru húsnæði eða þá að húsnæðið stendur autt. Þessi hópur vill ekki endilega selja en getur í raun ekki heldur leigt út húsnæðið, því þá skerðast bætur auk þess sem kemur til skattgreiðsla. Ef gamla konan gæti leigt út stóru íbúðina og jafnvel leigt sér minni íbúð á móti án þess að vera „refsað“ fyrir það, þá myndi það auka framboðið leigutökum í hag og bæta nýtingu á því húsnæði sem til er í landinu. Það ætti að vera okkar allra hagur.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×