Innlent

Lækkun hefur ekki áhrif á fæðingarorlofsgreiðslur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gissur Pétursson er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Ef af lækkun tryggingagjaldsins verður mun það ekki hafa áhrif á fæðingarorlofssjóð. „Hin lögbundnu réttindi eru í sjálfu sér annað mál og ef fjármögnun þeirra réttinda verður eitthvað takmörkuð út af þessu verður bara að mæta því með öðrum skatttekjum,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Í umræðunni nú er lækkun tryggingagjalds. Ein af meginforsendum þess að aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir SALEK-samkomulagið svokallaða var að stjórnvöld gripu til mótvægisaðgerða vegna aukins launakostnaðar. Ein helsta aðgerðin væri að stjórnvöld lækkuðu tryggingagjald.

Fæðingarorlofið á Íslandi er fjármagnað með hlutdeild í tryggingagjaldi, en réttindi til greiðslu úr sjóðnum eru tryggð með lögum og fjármögnuð af ríkinu. „Það er eiginlega óskylt mál að lækka tryggingagjaldið. Það að lækka tekjur fæðingarorlofssjóðs þýðir ekki að réttindin verði skert, þá yrði þeim bara mætt með uppbót úr ríkissjóði. Ef sjóðurinn á ekki fyrir sínum útgjöldum innan ársins þá fer hann í skuld við ríkissjóð og svo er það jafnað út með hærri tekjum ef svo er eða að útgjöldin minnka, sem getur verið vegna færri fæðinga eða eitthvað slíkt,“ segir Gissur. „Ef ríkisvaldið tekur ákvörðun um það að lækka tekjur þessa fjárlagaliðar, en réttindi halda áfram óbreytt eða aukast jafnvel, þá þarf að mæta því með annarri fjármögnun úr ríkissjóði.“

Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi námu 73,4 milljörðum króna á árinu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×