Innlent

Lækka verð til bænda vegna kjötfjalls í frysti

Sveinn Arnarsson skrifar
Illa gengur að afsetja fé frá því í fyrra.
Illa gengur að afsetja fé frá því í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Ekki gengur nægilega vel að selja sauðfjárafurðir úr haustslátrun ársins í fyrra sem veldur því að verð til sauðfjárbænda lækkar um tíu prósent.

Erlendir markaðir hafa hrunið á árinu og enn eru til um 1.800 tonn af lambakjöti í frystum afurðastöðva rétt fyrir sláturvertíð ársins 2016.

Framleiðsla á lambakjöti á ári hverju losar rétt um tíu þúsund tonn. Þar af hafa um 2.900 tonn verið flutt til útlanda á aðra markaði. Enn eru samt til um átján hundruð tonn í frystum landsins frá síðustu sláturtíð.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir horfur ekki góðar með nýjum búvörusamningum.

„Gert er ráð fyrir gripagreiðslum í stað ærgilda eins og nú er og það mun aðeins auka framleiðni sauðfjárbænda og þeir lenda í vítahring. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða rækilega,“ segir Björt.

Neysla kindakjöts hefur dregist saman síðustu 12 mánuði um eitt prósent og er nú svo komið að kindakjötsneysla er um fjórðungur allrar kjötneyslu landsins.

Björt Ólafsdóttir
Neysla svínakjöts á hinn bóginn hefur aukist um 8,3 prósent og er nú 24 prósent heildarneyslu landsmanna. Stærsta einstaka breytingin á neysluvenjum hér á landi síðustu tólf mánuði er í nautakjöti en neysla nautakjöts hefur aukist um þrjátíu prósent á síðustu tólf mánuðum.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir markaði hafa hrunið á árinu.

Þórarinn Ingi Pétursson
„Nú er svo komið að Rússamarkaður er hruninn og markaður fyrir aukaafurðir er einnig hruninn. Við höfum verið að gera það gott á mörkuðum þar sem við seljum undir okkar vörumerkjum en þar sem framleiðslan fer bara inn á einhvern markað er salan mjög léleg,“ segir Þórarinn. Framleiðslan er ekki of mikil að mati Þórarins.

„Ef við skoðum stöðuna fyrir fjórum árum þá vorum við að framleiða meira en nú en framleiddum samt of lítið fyrir markaði. Núna erum við að framleiða kannski aðeins of mikið en þetta kemur í sveiflum,“ segir Þórarinn Ingi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×