Skoðun

Lægra verð til neytenda

Hörður Harðarson skrifar
Það vakti verðskuldaða athygli á dögunum þegar IKEA tilkynnti að verslunin myndi lækka verð á vörum í verslun sinni um 2,8% þrátt fyrir aukinn kostnað vegna nýrra kjarasamninga.

Ástæðan er að styrking krónunnar hefur leitt til lægra innkaupaverðs fyrir verslunina og þannig vegið upp á móti auknum kostnaði vegna kjarasamninga og rúmlega það. Þetta er ekki bara afar virðingarvert hjá IKEA heldur einnig afar ábyrgt út frá efnahagslegu sjónarmiði því að með þessum hætti stuðlar fyrirtækið að auknum stöðugleika og heldur aftur af verðbólgu sem stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins hafa lagt mikla áherslu á.

Verð til bænda hefur lækkað

Við svínabændur höfum lengi reynt að vekja athygli á að þrátt fyrir að verð á þeim afurðum sem við seljum frá okkur hafi lækkað þá hefur það ekki skilað sér í lægra verði til neytenda. Frá 1. janúar 2013 til 31. júlí sl. hefur verð til okkar bænda lækkað um 8,91% en á sama tíma hefur verð til neytenda á matvöru sem unnin er úr svínakjöti, til dæmis áleggi og pylsum, hækkað um 9,19% og verð á fersku og frosnu kjöti aðeins lækkað um 1,21%.

Það er því umtalsverður munur á þeirri breytingu sem orðið hefur á því verði sem svínabændur fá fyrir afurðir sína og því verði sem neytendum stendur til boða. Ekki er ljóst hvert ágóðinn af þessari miklu lækkun á verði til bænda hefur runnið en hitt er þó ljóst að hann hefur ekki að skilað sér til neytenda.

Verslunin ætti að fylgja fordæmi IKEA

Hér er því um að ræða álíka stöðu og IKEA er í og varð til þess að verslunin ákvað að lækka hjá sér vöruverð. Svínabændur eru nú að selja svínakjöt á lægra verði en áður og því væri eðlilegast að það skilaði sé í lægra verði til neytenda. Verslunin hefur nú tækifæri til að fylgja fordæmi IKEA og skila ágóðanum af þeirri lækkun afurðaverðs sem svínabændur hafa tekið á sig til neytenda. Það getur ekki gengið lengur að verslunin haldi áfram að auka hagnað sinn á kostnað neytenda.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×