Erlent

Lá á gólfinu í tvær klukkustundir og mátti ekki hreyfa sig

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jean François Tessier og Myriam Pineault-Latreille samstarfskona hans. Einnig má sjá útsýnið út úr þinghúsinu.
Jean François Tessier og Myriam Pineault-Latreille samstarfskona hans. Einnig má sjá útsýnið út úr þinghúsinu.
„Við erum enn föst inni á skrifstofunni,“ segir Jean Francois Tessier, íslenskur ríkisborgari og aðstoðarmaður kanadíska þingmannsins Alexandrine Latendresse. Hann segir að enginn hafi fengið að yfirgefa kanadíska þinghúsið síðustu átta klukkustundir.

Maður hóf skothríð við minnisvarða fyrir framan kanadíska þingið í Ottawa fyrr í morgun. Einn árásarmannanna var skotinn til bana fyrr í dag af lögreglu en hún telur að fleiri árásarmenn sé jafnvel enn í borginni.

„Nú megum við ganga um bygginguna þar sem búið er að gera allar öryggisráðstafanir innanhús. Hér eru lögreglumenn allstaðar og verið er að rýma aðalbygginguna og austurálmuna. Þar eru allar skrifstofur þingmannanna.“

Hermaður sem særðist í skotárásinni við þinghúsið lést í kjölfarið. Lögreglan leitar nú um alla borg en ekki er víst hversu margir voru að verki.

Jean Francois segir að lögreglan leiti nú að öðrum skotmanni um alla borg og eins og staðan er fær enginn að yfirgefa Ottawa-borg án þess að fara í gegnum öryggishlið.

„Við fáum líklega að yfirgefa húsið á næstu klukkustundum,“ segir Francois sem hefur náð að halda ró sinni í allan dag. Það sama eigi ekki við um alla og greip um sig ákveðin skelfing fyrr í dag.

Francois hefur fengið veður af því innanhús að grunur leiki á því að árásamaðurinn sé kanadískur íslamisti og hafi ekki verið einn að verki.

Alexandrine Latendresse, þingkonan, sem Francois starfar fyrir, lá á gólfinu inni í þinghúsinu í tvær klukkustundir eftir að árásin átti sér stað. Hún mátti í raun ekkert hreyfa sig.

Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Kanadastjórn að hún hygðist taka þátt í loftárásum gegn hryðjuverkasamtökunum IS í Írak. Það er hins vegar ekkert sem staðfestir að skotárásin í dag tengist IS.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×