Innlent

Kynsjúkdómar færast í aukana hér á landi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kynsjúkdómar eru að færast í aukana hér á landi og þá einkum sárasótt og lekandi. Þá hafa fleiri greinst með HIV það sem af er ári en á öllu síðasta ári. Sóttvarnarlæknir segir þessa þróun vera áhyggjuefni og að hvetja þurfi til aukinnar smokkanotkunar.

Greint er frá því í fréttabréfi sóttvarnarlæknis að kynsjúkdómar hafi verið að sækja í sig veðrið hér á landi undanfarna mánuði. Það sem af er árinu 2016 hafa 16 tilfelli af sárasótt verið greind á Íslandi, fjórtán karlmenn og tvær konur. Það er umtalsverð aukning á sjúkdómum á undanförnum tveimur árum. Þá hafa mun fleiri greinst með lekanda á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Það sem af er árinu 2016 hafa 16 einstaklingar greinst með HIV-sýkingu, þar af þrír með alnæmi. Það eru fleiri en á öllu síðasta ári.  

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir þetta áhyggjuefni.

„Menn eru að sjá þessa aukningu á lekanda og sárasótt. Þetta er aukning einkum hjá karlmönnum sem hafa kynmök við aðra karlmenn. Sennilega er orsökin sú að menn eru farnir að slaka á notkun smokka og viðhafa kynmök sem eru kannski ekki eins örugg og áður,“segir Þórólfur.

„Það hefur náðst mjög góður árangur í meðferð við HIV og það má vel vera að menn hafi slakað aðeins á og talið að það sé ekki þörf á að nota smokka. Þess vegna blossi þessir kynsjúkdómar upp aftur. Mér finnst það líklegasta skýringin.“

Þórólfur segir að hvetja þurfi til aukinnar smokkanotkunar þar sem dregið hafi jafnt og þétt úr notkun þeirra síðustu ár. 

„Það þarf í fyrsta lagi að vekja athygli á þessu og koma þessum skilaboðum inn í áhættuhópana þar sem þessi sýking er orðin áberandi. Og hvetja til ábyrgs kynlífs og aukinnar notkunnar smokka. Svo þarf líka að efla forvarnir og upplýsingafræðslu til dæmis í skólum. Það er það sem verið er að gera núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×