Erlent

Kynntu nýja 6.800 kílómetra járntjaldshjólaleið

Atli Ísleifsson skrifar
Hjólaleiðin hefst á landamærum Noregs og Rússlands við Barentshaf og liggur um Evrópu alla leið að Svartahafi.
Hjólaleiðin hefst á landamærum Noregs og Rússlands við Barentshaf og liggur um Evrópu alla leið að Svartahafi. Vísir/Getty
Áætlun um opnun 6.800 kílómetra hjólaleiðar meðfram járntjaldinu svokallaða var kynnt í húsi Evrópusambandsins í Vínarborg á mánudaginn.

„Stóra vandamálið í Evrópu er að við vitum svo lítið um hvort annað sem leiðir til gremju meðal fólks,“ sagði Johannes Hahn, framkvæmdastjóri byggðamála ESB í tilefni af kynningunni. Segir hann verkefnið muni skila sér í auknum skilningi Evrópubúa á hver öðrum.

Hjólaleiðin mun ganga undir heitinu „Járntjaldsleiðin“ og mun liggja frá norðurhluta Noregs og alla leið til Svartahafs, meðfram hugmyndafræðilegri skiptingu Evrópu á tímum kalda stríðsins.

Michael Cramer, formaður samgöngunefndar Evrópuþingsins, kom fyrst fram með hugmyndina að hjólaleiðinni árið 2005. „Á hjóli ferðu nógu hratt yfir til að sjá margt, en nægilega hægt til að horfa virkilega á það sem þú ferð framhjá.“

Leiðin á að vera þægileg yfirferðar, tiltölulega laus við bílaumferð og liggja framhjá eins mörgum merkilegum og sögufrægum stöðum og hægt er.

Á vef Guardian segir að leiðin muni hefjast á landamærum Noregs og Rússlands við Barentshaf, fylgja rússnesku og finnsku landamærunum, strönd Eystrasaltsríkjanna og Póllands og fyrrum landamærum Vestur- og Austur-Þýskalands. Þá mun leiðin fylgja landamærum Tékklands, Austurríkis, Slóveníu, Ungverjalands, Serbíu, Rúmeníu og Búlgaríu og klárast svo við strönd Svartahafs.

Cramer segir kostnað við gerð hjólaleiðarinnar ekki verða mikla þar sem hún mun liggja um vegi og stíga sem þegar eru til. „Í raun þarf einingis að koma upp merkingum með nafni og merki Járntjaldsleiðarinnar.“

Hugtakið „járntjaldið“ kom fyrst fram í ræðu Winstons Churchills sem hann flutti í Westminster háskólanum í Fulton í Bandaríkjunum árið 1946.

Búið er að koma upp heimasíðu fyrir hjólaleiðina. Þá má einnig hlaða niður korti af fyrirhugaðri hjólaleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×