Innlent

Kynnti Ísland sem tökustað fyrir kvikmyndir

Samúel Karl Ólason skrifar
Ragnheiður Elín í Kaliforníu.
Ragnheiður Elín í Kaliforníu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sótti í vikunni AFCI Location Show í Los Angeles. Þar kynnti hún Ísland sem sem tökustað fyrir kvikmyndir. Sýningin er árleg og þangað koma fulltrúar frá ýmsum löndum til að kynna sín svæði til kvikmyndagerðar.

Í frétt á vef Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytisins segir að Ragnheiður hafi fundað með aðilum úr kvikmyndageiranum, samtökum kvikmyndaframleiðenda, Disney, Warner Brothers og samtökum þeirra sem annast staðsetningarval þegar kvikmynd er gerð.

Þar segir einnig að til standi að endurskoða lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, en þau renna út á næsta ári. Markmiðið með ferð ráðherra er að afla upplýsinga um samkeppnisumhverfið og markaðsaðstæður og sjá hvað megi bæta í íslenskri löggjöf til að styrkja samkeppnishæfni landsins enn frekar á þessu sviði.

Þar að auki fundaði Ragnheiður með aðilum úr orkugeiranum um jarðhitamál. Kalifornía er stærsta jarðhitasvæði Bandaríkjanna og þar eru miklir möguleikar til að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Ferð ráðherra var skipulögð í samstarfi við Íslandsstofu og Aðalræðisskrifstofu Íslands í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×