Innlent

Kynbundið ofbeldi gegn feðrum sé viðurkennt

Svavar Hávarðsson skrifar
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar. Vísir/Valli
Samfélagið á að hætta að tipla á tánum í kringum þá staðreynd að þegar kerfisbundið er komið í veg fyrir að feður geti notið samvista við börnin sín, oft svo árum skiptir, þá er það ekkert annað en kynbundið ofbeldi.

Þetta sagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, í umræðum á Alþingi í gær. Hann sagðist vilja freista þess að setja málið á dagskrá í þinginu, enda hafi kynbundið ofbeldi gagnvart konum sem betur fer verið sett þar á dagskrá. „Það verður að horfast í augu við það grundvallaratriði að þetta er ofbeldi, þetta er brot á réttindum barna og yfirleitt feðra og við verðum að taka á þessu sem slíku.“

Guðmundur benti á að það standi skýrt í barnalögum að báðir foreldrar hafa óskoraðan rétt á því að umgangast börnin sín og beri reyndar skylda til þess að gera það.

„Blessunarlega höfum við ákveðið að grípa til alls konar aðgerða gegn ýmiss konar kynbundnu ofbeldi og reyna að útrýma því. Mér finnst mikilvægt að við setjum þessa tegund af ofbeldi, þar sem feðrum er meinað að hitta börnin sín, undir nákvæmlega þann sama hatt. Þetta er ekkert annað en það. Þetta er ofbeldi sem beinist aðallega gegn feðrum og eins og svo oft er með kynbundið ofbeldi þá bitnar þetta ofbeldi á börnunum,“ sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×