Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í beinni

Ritstjórn skrifar
Tvísýnt þykir hvort samningar sjómanna verði samþykktir. Niðurstaða úr atkvæðagreiðslu um samningana liggur fyrir í kvöld. Nánar verður fjallað um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Í fréttatímanum fjöllum við líka um Lindsor-málið svokallaða sem lýtur að meintum umboðssvikum stjórnenda og starfsmanna Kaupþings vegna lánveitingar Kaupþings banka til félagsins Lindsor Holding í Lúxemborg sem var veitt sama dag og Kaupþing fékk neyðarlán hjá Seðlabankanum 6. október 2008.

Héraðssaksóknari hefur sett rannsókn á meintum umboðssvikum í Lindsor-málinu á ís meðan sama mál er til rannsóknar í Lúxemborg. Þriggja manna teymi frá Lúxemborg var hér á landi í desember og fékk aðstoð frá héraðssaksóknara á grundvelli samnings um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum. Við fjöllum líka um ævintýralegan fund Trump Bandaríkjaforseta í Flórída í gær en yfirlýsingar hans á fundinum hafa vakið mikla furðu.

Í fréttatímanum verður fjallað um frumvarp um svokallaðar rafrettur sem skiptar skoðanir eru um. Óttast er að svartur markaður með nikótínolíu og rafrettur muni blómstra ef frumvarpið verður að lögum. Þá fjöllum við um offramboð á gulrótum en tugir tonna af íslenskum gulrótum safnast upp hjá garðyrkjubændum vegna lélegrar sölu sem rekja má til mikils innflutnings á gulrótum og óvenju góðrar uppskeru hér á landi síðastliðið haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×