Innlent

Kvikuflæðið undir Bárðarbungu að breytast

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/auðunn
Vísbendingar eru um að kvikuflæðið undir Bárðarbungu sé að breytast og hafa GPS mælingar sýnt óreglulegar jarðskorpuhreyfingar síðustu daga. Þá sjást jafnframt óverulegar breytingar á vatnamælum. Þetta er meðal þess sem kom fram á reglulegum fundi Vísindamannaráðs almannavarna í morgun.

Skjálftavirkni hefur verið nokkuð öflug síðastliðinn sólarhringinn en í gær mældust sjö skjálftar stærri en 3,0 í Bárðarbungu. Þeir stærstu voru 5,4 og 4,8 í gærkvöld. Smærri skjálftar mældust í Dyngjujökli og norðurhluta berggangsins. Sigið í ösku Bárðarbungu er með svipuðu móti og hefur verið, en hún sígur um 50 sentímetra á sólarhring. 

Búast má við gasmengun vestan og norðvestan gosstöðvanna í dag. Mengunarsvæðið nær vestur yfir Hofsjökul og norður að Skagafirði. morgun er búist við að mengunarsvæðið nái yfir Miðhálendið vestan og suðvestan gosstöðvanna. Ekki er hægt að útiloka að mengunarinnar verði vart á stærra svæði.

visir/auðunn
visir/auðunn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×