Skoðun

Kviknakin spíran á Bakkaveginum

Finnborgi Hermannsson skrifar
Ungum var mér innrætt að bera virðingu fyrir þjóðfánanum og þjóðsöngnum umfram önnur tákn íslenska lýðveldisins. Þegar pabbi kom í húsið á Njálsgötunni árið 1944 var eitt fyrsta verk hans að koma upp flaggstöng sem sett var niður í garðholunni innan við húsið. Þetta var stöng úr galvaníseruðu járnröri sem rekin var ofan í aðra járnstöng víðari sem sökkt var ofan í grassvörðinn. Hnúðurinn á stönginni var af tré, líklega renndur inni á bæjarverkstæði þar sem pabbi vann á þeim tíma.

Augljóst þótti að afi sem var gamall skipstjóri sæi um að flagga enda vanur að hagræða seglum frá því á skútuöldinni og hafði líka alltaf tiltæk segl á meðan hann var með flutningabátinn Skaftfelling fyrir viðsjárverðri strönd Suðurlands. Við bræðurnir horfðum andaktugir á afa okkar draga upp íslenska fánann og fíra honum svo niður að kvöldi eins og afi orðaði þetta. Í þessu fólst þögul innræting.

Svo var það þjóðsöngurinn. Dagskrá Ríkisútvarpsins lauk jafnan með því að spilaður var þjóðsöngurinn Ó guð vors lands. Alls ekki mátti slökkva á þjóðsöngnum eftir að hann byrjaði að hljóma, slíkt jafnaðist á við guðlast og gat haft afleiðingar. Þjóðsöngurinn kom úr frístandandi hátalara sem stóð aftan við viðtækið og hvort tveggja með merkinu Philips. Nú er þjóðsöngurinn bara spilaður á sunnudagskvöldum og tyllidögum og það má alls ekki slökkva í miðjum klíðum!

Þegar ég flutti í Hnífsdal fyrir tæplega 40 árum var þar uppi flaggstöng sem brotnaði í Gjögraveðri og það um sumartímann. Fékk undirritaður þá leyfi Guðna Einarssonar á Suðureyri að útsirkla sér spíru úr bunka vestur í Önundarfirði. Þar eru fisktrönur sem þurrkaðir eru á þorskhausar. Valdi mér þráðbeina spíru og ók með hana á kerrunni gegnum jarðgöngin til Skutulsfjarðar. Skóf af henni næfrana og málaði og setti hana síðan stoltur upp á garðhorninu í far hinnar fornu stangar. Gat notað af henni hnúðinn mjög slitinn úr eik.

Jafnan hefur verið flaggað hér á Bakkavegi 11 á tilsettum flaggdögum nema á föstudaginn langa en sú hefð lagðist af eftir allar hálfustengurnar snjóflóðaárið 1995. Þá var flaggað nóg í hálfastöng.

Mælirinn fullur

Eftir að herliðið hvarf úr landi árið 2006 og amerískur fáni af Miðnesheiði flaggaði ég með miklu stærri ánægju þann 17. júní.

Þar til nú 17. júní árið 2015, að ég flaggaði alls ekki. Spíran frá honum Guðna Einarssyni stóð bara þarna kviknakin og þráðbein á garðshorninu. Hér hafði eitthvað bilað með þá þöglu innrætingu afa míns frá því fyrir 70 árum.

Kvöldið áður var Kastljósþáttur í sjónvarpinu þar sem fram kom að sjúklingar af landsbyggðinni væru afgangsstærð á sjúkrahóteli Landspítalans. Þar ræður ríkjum íhaldsstúlka sem áður var bæjarstjóri í Garðabæ. Apparat sem heitir Sjúkratryggingar Íslands hafði á sínum tíma gert samninga við félagið Sinnum um slíkt fyrirkomulag. Forstjóri sjúkratrygginganna og flokksbróðir forstjórans sat fyrir svörum af fullkomnum hroka embættismanns sem maður hélt að heyrði til löngu liðinnar fortíðar.

Þetta eitt sér hafði ekki þau áhrif að spíran stóð nakin á Bakkaveginum 17. júní. Eitthvað innra með manni sagði: Ekki meir. Þarna varð mælirinn fullur og efni í aðra hugleiðingu. Ég sagði mig ekki úr lögum við lýðveldið Ísland. Sá svo í sjónvarpinu um kvöldið viðtöl við öskureið gamalmenni á Austurvelli og horfði á sjálfan mig í þeim. Velmegandi borgari kallaði þetta fólk svo skríl á Stöð 2.

Forsætisráðherrann flutti endemis þulu þarna á vellinum sem hefði sómt sér vel í Norður-Kóreu. Þarna stóð hann yfir höfuðsvörðum íslenska heilbrigðiskerfisins og vitnaði í útlenda hamingjuskala, og boðaði vatnaskil með afnámi hafta. Þá yrði nú hægt að bæta kjörin, ekki síst þeirra sem minnst hafa. Ekki furða þótt þeir sem „minnst hafa“ hafi hrokkið við undir lestrinum. Vill nefnilega til að ræður forsætisráðherra valda alla jafna ekki ólæsi og mánaðarlegar útskriftir Tryggingastofnunar til aldraðra og öryrkja segja alla söguna. Þar bólar ekki á eyrishækkun misserum saman þótt verðlag hafi sína hentisemi.

Ég segi mig ekki úr lögum við lýðveldið Ísland sem ég fæddist til árið 1945. Þeir sem fara með umboð þess, þjóðfána og þjóðsöng, úthýsa mér og mínum líkum á degi hverjum. Kómedían á Austurvelli verður æ farsakenndari með hverju árinu og þjóðfáninn þar og þjóðsöngur sem níðstöng ein gagnvart allri alþýðu manna.

Á meðan svo árar verður spíran á Bakkavegi 11 í Hnífsdal kviknakin 17. júní.




Skoðun

Sjá meira


×