Skoðun

Kvikmyndahátíð í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson skrifar
Kópavogsbær verður nú í fyrsta sinn vettvangur kvikmyndahátíðarinnar RIFF. Samstarf bæjarins við hátíðina var innsiglað síðastliði vor þegar lista- og menningarráð Kópavogs ákvað að styrkja RIFF með myndarlegu framlagi úr lista- og menningarsjóði. Sjóðurinn hefur það hlutverk að auðga menningarlíf bæjarins en í Kópavogi hafa menningarmál lengi verið í öndvegi. Fyrir hönd bæjarins fagna ég þeirri auknu fjölbreytni í menningarlífi bæjarins sem samstarfið við RIFF felur í sér.

Kópavogur verður vettvangur viðburða af margvíslegu tagi á meðan á kvikmyndahátíðinni stendur. Þar má nefna kvikmyndatónleika þar sem kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn flýgur, verður flutt við undirleik Sólstafa, málþing rithöfunda og kvikmyndagerðarfólks um það hvernig breyta má bók í bíó, bílabíó við Smáralind og stuttmyndasýning í Sundlaug Kópavogs. Þá fá skólabörn tilsögn í kvikmyndagerð og verður afraksturinn sýndur á sérstakri sýningu í Smárabíói.

Vettvangur þessara viðburða er víða um bæinn en menningarhúsin í Kópavogi eru í lykilhlutverki. Þau hafa löngum verið stolt bæjarbúa og ánægjulegt að gestir RIFF kynnist þeirri góðu aðstöðu sem Kópavogur býður upp á fyrir menningar- og listviðburði.

Ég vona að sem flestir njóti RIFF í Kópavogi og býð gesti og aðstandendur kvikmyndahátíðarinnar hjartanlega velkomin í bæinn. Um leið hvet ég íbúa Kópavogs til þess að taka þátt í RIFF í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×