Viðskipti innlent

Kvika hagnaðist um 1,9 milljarða

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku. Kvika
Hagnaður Kviku fjárfestingarbanka í fyrra nam 1.928 milljónum króna samanborið við 685 milljónir árið 2015. Arðsemi eiginfjár var 34,7 prósent og hreinar rekstrartekjur námu 5.318 milljónum á tímabilinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku. Þar segir að hreinar þóknanatekjur hafi numið 2.840 milljónum og að eignir í stýringu 121 milljarði króna í lok ársins. Fjárfestingatekjur voru 1.283 milljónir og afkoma af hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum í sjóðum nam 484 milljónum.

„Við erum stolt af þeim frábæra árangri sem náðst hefur í stefnulegri uppbyggingu Kviku, eina sérhæfða fjárfestingabanka Íslands. Að baki er fyrsta heila rekstrarár Kviku og afkoma ársins gefur okkur góðan byr undir báða vængi,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku.

Eigið fé bankans í árslok var 7.348 milljónir króna og jókst úr 6.293 milljón króna í árslok 2015, þrátt fyrir lækkun hlutafjár að fjárhæð 1.000 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2016. Eiginfjárhlutfall í lok desember var 20,6 prósent samanborið við 23,5% í árslok 2015. Eiginfjárstaða bankans er sterk og eiginfjárhlutfall vel umfram kröfur eftirlitsaðila,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×