Handbolti

Kvennalandsliðið í handbolta kom illa út úr þrekmælingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í handbolta komu illa út úr þrekmælingum sem þeir voru settir í lok sumars og voru framkvæmdar af Háskólanum í Reykjavík. Niðurstöðurnar ollu vonbrigðum og þóttu óviðundandi.

Líkamlegt atgervi íslenska landsliðsins var talsvert í umræðunni eftir 14 marka tap Íslands, 16-30, fyrir Frökkum á heimavelli snemma í sumar. Eftir leikinn talaði landsliðsfyrirliðinn Karen Knútsdóttir hreint út og sagði líkamlega burði íslenska liðsins einfaldlega ekki nógu mikla.

Guðjón Guðmundsson ræddi við Axel Stefánsson, sem tók við kvennalandsliðinu í sumar, um þessi mál í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Eins og ég sagði við leikmennina er mikilvægt að við mælum þá til að sjá hvar þeir eru staddir. Nýjar mælingar verða framkvæmdar eftir þetta verkefni í Færeyjum. Það verður spennandi að sjá hvernig leikmenn hafa brugðist við. Það er alltaf mikilvægt að sjá hvar við stöndum og fyrir okkur þjálfarana að sjá hvað við þurfum að leggja áherslu á,“ sagði Axel sem hefur starfað við þjálfun í Noregi undanfarin ár.

En voru niðurstöðurnar úr þrekmælingunum verri en hann bjóst við?

„Ég hafði í raun ekki gert mér grein fyrir því hvar við stóðum. Ég kom frá Noregi og gerði mér grein fyrir að við stóðum þeim að baki,“ sagði Axel sem er ánægður hvernig leikmenn hafa brugðist við.

„Leikmenn eru vinna vel í sínum málum í gegnum félögin. Þetta hefur verið góð vitundarvakning fyrir leikmenn og það eru allir að vilja gerðir. Ég hef átt samtöl við þjálfara sem hafa líka tekið vel í það sem við ætlum að gera,“ sagði Axel sem undirbýr íslenska liðið nú fyrir undankeppni HM 2017.

Ísland er í riðli með Austurríki, Færeyjum og Makedóníu en riðilinn fer fram í Færeyjum um næstu helgi. Tvö efstu liðin komast áfram í umspil um sæti á HM og það er markmið íslenska liðsins að sögn Axels.

Fréttina má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×