Innlent

Kvenfrumkvöðullinn stígur á svið

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri Azazo, og Anna María Jóhannesdóttir viðskiptafræðingur eru sammála um að umsvif kvenna í frumkvöðlageiranum á Íslandi fari vaxandi.
Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri Azazo, og Anna María Jóhannesdóttir viðskiptafræðingur eru sammála um að umsvif kvenna í frumkvöðlageiranum á Íslandi fari vaxandi.
Við hefjum þetta á játningu. Í hálft ár eða svo hef ég fjallað um vísindi, tækni og nýsköpun á síðum Fréttablaðsins. Umfjöllunarefnin eiga tvennt sameiginlegt. Annars vegar varpa þau ljósi á hvernig vísindin móta daglegt líf okkar. Hins vegar eiga þau það sammerkt að engin kona kemur fyrir í þeim. Þetta er vægast sagt dapurleg staðreynd. Þegar ég skrifa þetta átta ég mig jafnframt á að ég man aðeins eftir tveimur konum sem mörkuðu djúp spor í vísindasögunni. Hvað með þig?

Í mínum huga eru frumkvöðlarnir okkar vitnisburður um hvert við stefnum sem samfélag. Hvað þýðir það þá þegar konur í frumkvöðlageiranum eru jafn fáar og raun ber vitni? Í vísindasögunni er að finna urmul tilfella þar sem stórkostlegar uppgötvanir kvenna hafa verið þaggaðar niður og oft eignaðar körlum. Í dag blasir sú staðreynd við að aðeins 11 prósent stjórnenda í Kísildalnum í Bandaríkjunum eru konur og á lista Forbes yfir 100 áhrifamestu leiðtoga tæknigeirans eru konurnar fjórar talsins.

Íslenska samhengið

Eins og Anna María Jóhannesdóttir, sem nýverið lauk meistaranámi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, komst að þá er þetta vandamál ekki einskorðað við Norður-Kaliforníu. Anna, sem hefur bakgrunn í lífefnafræði, beindi sjónum að kvenfrumkvöðlum á Íslandi og áskorunum þeirra í eigindlegri rannsókn.

„Það sem við almennt þekkjum varðandi persónueinkenni frumkvöðla; hvatningu, bakgrunn, fjölskylduhagi, starfsreynslu, árangur og mistök, hefur að mestu verið skrifað um karlfrumkvöðla,“ ritar Anna í ritgerð sinni og heldur áfram: „Til dæmis hafa vissir eiginleikar verið tengdir við árangur eins og áhættusækni, sjálfstæði og leit að efnahagslegum möguleikum eftir röklegum leiðum. Þannig er litið svo á að frumkvöðlar beri stereótípíska karlmannlega eiginleika. Þetta vinnur bersýnilega gegn konum.“

Anna er hreinskilin í svörum aðspurð um ástæður þess að hún ákvað að rannsaka kvenfrumkvöðla á Íslandi. „Að einhverju leyti er þetta líka fyrir sjálfa mig. Ég hef alltaf haft áhuga á að stofna fyrirtæki og ég vona að ég geri það í framtíðinni. Svo í rauninni var það mikill hvati fyrir mig að læra af reynslu þeirra.“

Kynbundnar áskoranir

Í ritgerðinni, sem ber heitið „Ég vil fá að vera ég sjálf þó ég sé kona“, ræðir Anna við níu konur sem stofnað hafa fyrirtæki í tækni-, vísinda- og verkfræðigeiranum. Niðurstöður hennar draga upp mynd af bjartsýnum konum og jákvæðum sem með tölu hafa tröllatrú á fyrirtækjum sínum. Atgervi frumkvöðla eru athyglisverð fræði en engu að síður fræði sem hingað til hafa að stórum hluta til tekið mið af reynsluheimi karla, eða eins og Anna kemst að orði: „Fyrirtækið verður framlenging af frumkvöðlinum sem einstaklingi og fyrirtækið endurspeglar persónuleika hans.“

Konurnar níu í ritgerð Önnu lýsa allar erfiðleikum sem flestir frumkvöðlar, karlar og konur, þurfa að takast á við en einnig kynbundnum áskorunum kvenna í karlaheimi. „Þær töluðu einna helst um það í tengslum við fjármögnun. Að það væri viss hindrun að vera kona þegar fjármagn er annars vegar.“

Einn viðmælandi Önnu segist hafa séð að greinilegt ósamræmi væri í fjármögnun fyrirtækja og leit svo á að fremur væri fjárfest í fyrirtækjum karlmanna. „Þannig að það er spurning hvað er að gerast hér, af hverju erum við ekki að fá jafn mikið og strákarnir?“ spyr frumkvöðullinn.

Þegar kemur að beinum fordómum og karlrembu lýsa nokkrar konur nánast súrrealískum aðstæðum. Þar á meðal er makalaus sena þar sem frumkvöðullinn fer ásamt meðeiganda (karlmanni) til endurskoðanda. Ljóst er að konan fer með fjármálastjórn fyrirtækisins en endurskoðandinn beinir hvað eftir annað svörum sínum og spurningum til meðeigandans.

Önnur var að ræða við yfirmann í banka. „Hann sagði „já, lána þeir ekki bara út á andlitið“. Það eru svona skot sem þú færð þegar þú ert kona. Þetta myndi karlmaður aldrei fá,“ segir hún.

Að gefast ekki upp

Konurnar í frumkvöðlageiranum á Íslandi eru ekki margar, en þær eru sannarlega til staðar. Ein af þeim er Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Azazo. Fyrirtækið stofnaði hún árið 2007, þá einstæð móðir með fjögur börn og 20 ára reynslu af stjórnunarstörfum.

Brynju klæjaði. Nokkuð algengt sjúkdómseinkenni frumkvöðla. Kláðinn var vandamál sem Brynja þurfti að leysa og hafði að gera með að alltof mikill tími fór í að leita að upplýsingum á vinnustöðum og tölvukerfin oft of mörg auk þess sem þau töluðu ekki saman. „Það er staðreynd að 10-50% af tíma fólks á sumum vinnustöðum fer í að leita að gögnum og skrá óþarfa gögn,“ segir Brynja. „Við vildum þróa kerfi sem hugsar fyrir þig.“

Því hefur Azazo þróað upplýsingastjórnunarkerfið CoreData ECM og er í fararbroddi í upplýsingatækni á Íslandi. Íslenska ríkið undirritaði ríkisreikning síðasta árs með rafrænum skilríkjum í Coredata-hugbúnaði Azazo. Einsdæmi í heiminum.

Harkið

„Það er ákveðin krafa í menningu okkar að mæður eigi að vernda börnin og heimilið. Þannig var maður sífellt að leita að hættulausri leið til að stofna fyrirtæki svo ég þyrfti ekki veðsetja húsið,“ segir Brynja. Hún leitaði ráða hjá þeim sem höfðu náð langt í geiranum. „Hvers vegna eiga bankarnir að veðja á þig ef þú þorir ekki að leggja allt að veði?“ spurði ein lærimóðirin.

Brynja sló til. „Ef ég missi allt þá er það bara þannig. Ég er heilsuhraust og börnin mín líka. Við finnum annað heimili. Heimili er ekki steypan.“ Þar með er ekki sagt að þetta hafi verið leikur einn. Í orðum Brynju ómar reynsla níumenninganna í ritgerð Önnu Maríu.

„Einstæð 40 ára móðir að stofna fyrirtæki var ekki beint hin viðtekna staðalmynd,“ segir Brynja. „Kúltúrinn er þannig að konur eiga að stofna krúttleg fyrirtæki.“ Brynja setti saman metnaðarfulla viðskiptaáætlun (lesist: heimsyfirráð). Það fór svo að hún dró úr umfangi hennar svo hún væri „kvenlegri“ og kæmi bankastofnunum ekki í opna skjöldu að kona væri með svo ítarlega viðskiptaáætlun. Í dag starfa 50 mann hjá AZAZO í sex löndum.

Eins þurfti hún að þola hlutdrægni karla og kvenna, ómeðvitaða og meðvitaða. „Ég er með mikið af stórkostlegum fjárfestum í fyrirtækinu mínu. En ég er líka búin að lenda í því að hitta fjárfesti, sem er ekki fjárfestir hjá okkur, sem var búinn að bóka hótelherbergi fyrir okkur. Þá hef ég kynnt stóran samning á fundi og þá heyrir maður „varstu í stuttu pilsi?“

„Maður þarf oft að tækla það að vera kynvera. Ég hef ekki breytt neinu. Ég er kvenmaður og vil vera klædd eins og kvenmaður. Ég hef ekki farið í það að klæða mig í strigapoka,“ segir Brynja og bætir við: „En þú vilt fá hrós á réttum forsendum.“

„Ég vildi óska þess að þetta væri ekki svona en þetta er staðreyndin. Þó svo að það sé mun auðveldara fyrir ungar konur að stofna fyrirtæki í dag þá munu þær enn reka sig á svipaða veggi og ég lenti á, en vonandi eru þeir færri.“

Fyrirmyndir

Núningur staðlaðra hugmynda og framsækinna hugsjóna myndar mótlætið sem frumkvöðullinn þarf að takast á við. Kvenfrumkvöðlar hafa háð baráttu gegn staðalímyndum og fordómum og haft betur. Fyrirmyndir verða nú til. „Vonandi verða kvenfrumkvöðlarnir okkar í dag hvatning til stelpna að feta sömu spor og vera óhræddar að gera það,“ segir Anna María að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×