Innlent

Kvartaði eftir að hafa verið kallaður asni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fangi á Litla-Hrauni kvartaði undan framkomu starfsmanns.
Fangi á Litla-Hrauni kvartaði undan framkomu starfsmanns. vísir/Anton brink
Umboðsmaður Alþingis hefur vísað erindi fanga á Litla-Hrauni, sem kvartaði undan framkomu starfsmanns fangelsisins í sinn garð, aftur til fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins. Var framangreindum stjórnvöldum gert að tryggja skilvirkari farveg í slíkum kvörtunarmálum.

Fanginn sendi inn kvörtun eftir að starfsmaður í fangelsinu kallaði hann „helvítis“ eða „andskotans“ asna og sagði honum að „snáfa í burtu“. Sögur fangans og starfsmannsins stangast þó á samkvæmt gögnum málsins, en fanginn sagðist hafa orðið þunglyndur í viku eftir orð starfsmannsins.

Fanginn segir í bréfi til forstöðumanns fangelsisins að starfsmaðurinn hafi orðið reiður vegna kvörtunarinnar. Hann hafi endurtekið orð sín um að hann væri „helvítis asni“ og þá í viðurvist fanga. Segist fanginn hafa upplifað ógnandi tilburði af hálfu starfsmannsins.

„Ég var alveg rólegur allan tímann og reyndi mjög rólega að ræða við han nen hann gaf mér engan séns á því. Atvikið kom upp í viðurvist vinnufélaga míns auk þess sem það er sjálfsagt til í myndavélakerfi fangelsisins,“ segir í bréfinu. Hafi hann orðið stressaður og ekki getað einbeitt sér með lærdóm, ásamt því sem hann hafi orðið fyrir miklu áfalli.

Starfsmaðurinn sagði fangann hafa sakað fangaverði um líkamsmeiðingar og að í kjölfarið hafi þeir átt í orðaskiptum. Eftir kvörtunina hafi hann talað við fangann, sem hafði krafist afsökunarbeiðni, og sagt honum að hann ætti sjálfur að biðjast afsökunar á ummælum um meintar líkamsmeiðingar fangavarða.

„Fanginn vildi ekki biðjast afsökunar á orðum sínum en sagði að ég ætti að gera það. Rangt er haft eftir mér í bréfi fangans að ég hafi endurtekið að hann væri „helvítis asni“ ég sagði við fangann að ég vissi vel hvað ég hefði sagt við hann þann 2.apríl, ég hefði sagt að hann væri asni. Einnig er rangt í bréfi fangans að ég hafi gert mér sérstaka ferð inn á vinnustað hans til að agnúast út í hann, ég geri mér far um að koma á vinnustaði fanga með reglulegu millibili,“ segir í bréfi starfsmannsins til fangelsisins.

Fanginn segir að vegna skorts á svörum frá fangelsisyfirvöldum hafi kvörtunin verið send til innanríkisráðuneytisins. Í kjölfarið sendi hann málið til umboðsmanns Alþingis en í niðurstöðu hans er þeim tilmælum beint til fangelsisins, fangelsismálastofnunar og innanríkisráðuneytisins að hugað verði að því að koma meðferð og úrlausn kvartana  fanga vegna háttsemi starfsmanna fangelsanna í þeirra garð í tryggari og skilvirkari farveg en raun hafi verið í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×