Erlent

Kúrdar segja tyrkneska herinn skjóta á sig

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kúrdar segja Tyrki ráðast á sig í Sýrlandi en Tyrkir neita því alfarið.
Kúrdar segja Tyrki ráðast á sig í Sýrlandi en Tyrkir neita því alfarið. nordicphotos/afp
YPG, hersveitir Kúrda í norðurhluta Sýrlands nærri landamærunum við Tyrkland, sögðu í gær að tyrkneski herinn skyti á sig nærri sýrlenska bænum Kobane. Bærinn hefur verið skotmark Íslamska ríkisins og var nærri lagður í eyði um síðustu áramót. Síðan þá hafa íbúarnir snúið aftur til bæjarins í þeim tilgangi að endurbyggja hann.

Hersveitir Kúrda á svæðinu hafa síðustu misseri verið mikilvægir bandamenn Vesturlanda í stríðinu gegn Íslamska ríkinu. Tyrkneska ríkisstjórnin hefur löngum sætt gagnrýni fyrir meinta mismunun þeirra í garð Kúrda og nú væna Kúrdar þá um að skjóta sig í bakið í baráttunni gegn Íslamska ríkinu.

„Í stað þess að ráðast gegn sveitum Íslamska ríkisins ráðast tyrkneskir hermenn á okkur. Við hvetjum tyrknesku ríkisstjórnina til að láta af árásunum,“ segir í tilkynningu frá hersveitunum.

Tyrkir neita ásökunum Kúrda en segjast vera með málið í rannsókn. Hersveitir Tyrkja réðust inn í Sýrland í síðustu viku í kjölfar árása Íslamska ríkisins á Tyrkland, meðal annars á hóp Kúrda í Suruc sem fundaði um endurreisn Kobane. Tyrkir vinna nú með Bandaríkjamönnum og Kúrdum við að reka Íslamska ríkið frá norðurhluta Sýrlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×