Erlent

Kúrdar sækjast eftir loftvarnarvopnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ákveðnir uppreisnarhópar hafa fengið sérstök vopn gegn skriðdrekum frá Bandaríkjunum.
Ákveðnir uppreisnarhópar hafa fengið sérstök vopn gegn skriðdrekum frá Bandaríkjunum. Vísir/AFP
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að draga úr takmörkunum á því hvernig vopn megi veita ákveðnum hópum sem berjast í Sýrlandi. Hingað til hafa ákveðnir hópar geta fengið sérstök vopn sem ætlað er að granda skriðdrekum en nú gætu þeir fengið vopn til að granda flugvélum og þyrlum. Rússar segja þessa ákvörðun vera beina ógn gegn flugmönnum sínum.

Talskona utanríkisráðuneytis Rússlands segir stjórnvöld þar líta á ákvörðunina sem óvinveitta aðgerð.

Syrian Democratic Forces, helsti bandamaður Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi, vonast til þess að nú fái þeir eldflaugar til að granda flugvélum. Þrátt fyrir að SDF berjist eingöngu gegn ISIS, sem ekki býr yfir flugvélum eða þyrlum, segir talsmaður SDF að vopnin yrðu notuð gegn „mögulegum framtíðar-andstæðingum“ þeirra.

Hingað til hafa Bandaríkin neitað að láta bandamenn sína frá slík vopn af ótta við að þau lendi í höndum vígamanna ISIS.

Rússar segja óhjákvæmilegt að svo muni fara, verði slík vopn send til Sýrlands.

Líta á SDF sem hryðjuverkasamtök

SDF samanstanda að mestu af sýrlenskum Kúrdum og einnig hópum Araba. Þeir eru studdir af bandarískum sérsveitarmönnum og loftárásum og hafa tekið stóran hluta norður-Sýrlands af Íslamska ríkinu og stofnað þar sjálfstjórnarsvæði. Bæði Tyrkir, sem gerðu í raun innrás í Sýrland í haust, og stjórnarher Bashar al-Assad hafa gert loftárásir gegn SDF.

Yfirvöld í Tyrklandi líta á sýrlenska Kúrda, YPG, sem hryðjuverkasamtök tengd Verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi sem einnig er litið á sem hryðjuverkasamtök og hafa barist fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda í austurhluta Tyrklands í um þrjá áratugi. Tyrkir óttast að velgengni Kúrda í Sýrlandi gæti verið olía á eld uppreisnarinnar í Tyrklandi.

Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hélt því fram á blaðamannafundi í dag að Bandaríkin væru að styðja við bakið á hryðjuverkahópum í Sýrlandi. Hann nefndi sýrlenska Kúrda og Íslamska ríkið í því samhengi og sagði Tyrki búa yfir myndum sem staðfesti það. Tyrkir voru lengi sakaðir um að hafa litið framhjá aðgerðum ISIS á landamærum Tyrklands og Sýrlands eins og olíusölu og ferðum erlendra vígamanna. SDF hefur nú rekið ISIS-liða frá landamærum Tyrklands.


Tengdar fréttir

„Þeir óttast raddir okkar“

Fjöldi kvenna hafa gengið til liðs við YPG-sveitir Kúrda í Sýrlandi til að hefna fyrir framferði ISIS gagnvart konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×