Erlent

Kúrdar ná Kobane aftur úr höndum ISIS-liða

Atli Ísleifsson skrifar
Sýrlensk mannréttindasamtök áætla að um 1.600 manns hafi látist í átökunum um Kobane frá því um miðjan september.
Sýrlensk mannréttindasamtök áætla að um 1.600 manns hafi látist í átökunum um Kobane frá því um miðjan september. Vísir/AP
Hersveitir Kúrda hafa náð að hrekja liðsmenn ISIS út úr sýrlensku borginni Kobane. Reuters greinir frá.

Fréttaveitan AP hefur þó eftir talsmönnum Kúrda að enn séu nokkrar götur í borginni sem enn séu á valdi ISIS-liða.

ISIS náði um þrjú hundruð smábæjum í kringum Kobane í september og héldu að lokum inn í borgina sjálfa. Átök hafa staðið þar yfir síðan.

Tugir þúsunda íbúa borgarinnar hafa flúið til Tyrklands síðustu mánuði en borgin stendur við landamæri Sýrlands og Tyrklands.

Loftárásir Bandaríkjahers og bandamanna þeirra hafa einna helst beinst að skotmörkum í og í kringum borgina Kobane síðustu mánuði. Þannig lýsti John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að það væri „siðferðislega erfitt“ að aðstoða ekki íbúa Kobane.

Hersveitir Kúrda hafa barist gegn liðsmönnum ISIS í og í kringum borgina Kobane. Tyrknesk yfirvöld hafa skilgreint hersveitir Kúrda sem hryðjuverkasveitir en samþykktu í haust að hersveitir írakskra Kúrda mættu fara um  tyrkneskt landsvæði í baráttu sinni.

Sýrlensk mannréttindasamtök áætla að um 1.600 manns hafi látist í átökunum um Kobane frá því um miðjan september - um 1.100 liðsmenn ISIS, um 450 Kúrdar og 32 óbreyttir borgarar.

Þá greina samtökin frá því að síðustu vikurnar hafi liðsmenn ISIS í örvæntingu sinni gert 35 sjálfsvígsárásir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×