Golf

Kunnugleg nöfn í toppbaráttunni eftir fyrsta hring á Augusta

Jimenez og Haas voru sáttir eftir fyrsta hring í dag.
Jimenez og Haas voru sáttir eftir fyrsta hring í dag. AP/Vísir
Mastersmótið hófst í dag en til þess að hefja þessa miklu golfveislu formlega voru goðsagnirnar Arnold Palmer, Jack Niclaus og Gary Player fengnar til þess að slá fyrstu höggin í mótinu. Það er óhætt að segja að mótið í ár hafi farið vel af stað en aðstæður til golfleiks á hinum gríðarlega erfiða Augusta National voru góðar, léttur vindur og glampandi sólskyn.

Bill Haas lék best allra á fyrsta hring en hann kom inn á 68 höggum eða fjórum undir pari, Haas er þekktur fyrir að hefja mót vel en áhugavert verður að sjá hvort hann stenst pressuna á morgun sem fylgir því að leiða þetta sögufræga mót.

Það eru kunnugleg nöfn jöfn í öðru sæti og þar ber helst að nefna Adam Scott sem hóf titilvörn sína með því að leika á þremur höggum undir pari á fyrsta hring. Louis Oosthuizen lék einnig á þremur höggum undir pari sem og meistarinn frá 2012, Bubba Watson.

Sjö kylfingar eru jafnir í fimmta sæti á tveimur höggum undir pari en aðeins 19 kylfingar hófu mótið með hringjum sem voru undir pari vallar. Meðal þeirra eru ungstirnin Rory McIlroy, Rickie Fowler og Jordan Spieth á einu höggi undir pari ásamt öðrum þekktum nöfnum eins og töffaranum Fred Couples og Spánverjanum vinsæla Miguel Angel Jimenez.

Vonbrigði dagsins í augum margra var frammistaða Phil Mickelson en Augusta National hefur í gegn um tíðina dregið það besta úr þessum magnaða kylfingi. Sú var þó ekki raunin í dag en Mickelson lék á 76 höggum eða fjórum yfir pari og er mjög neðarlega á skortöflunni. Þá voru fleiri stór nöfn sem Augusta lék grátt í dag, meðal annars Justin Rose sem lék einnig á fjórum yfir, Dustin Johnson lék á fimm yfir pari og PGA meistarinn sjálfur, Jason Dufner kom inn á heilum 80 höggum eða átta yfir pari.

Sýnt verður beint frá öðrum hring á Golfstöðinni frá klukkan 19:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×